Fara í efni

Mikil afföll sauðfjár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun vinnur nú að öflun upplýsinga til að kanna umfang og útbreiðslu óvenju mikils dauða sauðfjár víða um land. Á þessari stundu er ekki vitað hvað veldur þessari aukningu í afföllum. Stofnunin hefur þegar haft samband við nokkra bændur og dýralækna og mun í dag hefja kerfisbundna úttekt á stöðunni.

Í fyrradag fékk Matvælastofnun tilkynningu frá dýralækni í Borgarnesi um óeðlilega mikil afföll sauðfjár á Vesturlandi og víðar um land. Stofnunin óskaði strax eftir undanþágu til að kalla sérgreinadýralækna sauðfjársjúkdóma og smitsjúkdóma úr verkfalli og vinna þeir nú að öflun nánari upplýsinga.  

Svo virðist sem afföllin hjá sauðfjárbændum hafi staðið yfir í einhvern tíma án þess að tilkynnt hafi verið um þau. Dýralæknar hafa sent nokkrar kindur til krufningar að Tilraunastöð HÍ að Keldum en rannsókn á þeim varpaði ekki skýrara ljósi á orsökina. Landssamtök sauðfjárbænda hafa haft forgöngu um að taka blóðsýni en niðurstöður rannsókna á þeim liggja ekki enn fyrir. 

Í dag  verða spurningalistar sendir til sauðfjárbænda og þeir beðnir um að svara þeim eins fljótt og kostur er. Mikilvægt er að allir leggist á eitt við að finna orsök dauðsfallanna. Matvælastofnun mun vinna að málinu í samvinnu við Landssamtök sauðfjárbænda og Tilraunastöð HÍ að Keldum.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?