Fara í efni

Merking og rekjanleiki erfðaabreyttra matvæla og fóðurs

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
   Í desember 2010 var fyrsta reglugerðin um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra matvæla og erfðabreytts fóðurs innleidd hér á landi (nr. 1038/2010). Þann 1. september sl. (2011) tók sá hluti reglugerðarinnar sem snýr að erfðabreyttu fóðri gildi, en gildistöku kaflans um erfðabreytt matvæli, sem átti að taka gildi á sama tíma, var frestað til 1. janúar 2012.
Því þurfa fóðurinnflytjendur nú að merkja erfðabreyttar vörur með „erfðabreytt“ eða „framleitt úr erfðabreyttu“ og uppfylla skyldur um rekjanleika en erfðabreytt matvæli þarf að merkja frá og með 1. janúar 2012.

Íslensku reglurnar byggja á reglugerðum Evrópusambandsins nr. 1829/2003 um erfðabreytt matvæli og fóður og nr. 1830/2003 um merkingu og rekjanleika erfðabreyttra lífvera og rekjanleika matvæla og fóðurs sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum. Íslensku reglurnar eru þó ekki að öllu leyti eins og þær evrópsku og er leyfi fyrir markaðssetningu erfðabreyttra matvæla t.d. sleppt í íslensku reglunum.

Samkvæmt reglugerðinni þarf að merkja matvæli og fóður sem samanstanda af eða innihalda erfðabreyttar lífverur og matvæli og fóður sem framleidd eru úr erfðabreyttum lífverum eða innihalda innihaldsefni framleidd úr erfðabreyttum lífverum (þó svo að erfðabreytta efnið greinist ekki í lokaafurðinni). Rekjanleiki þessara erfðabreyttu matvæla og erfðabreytta fóðurs þarf líka að vera fyrir hendi.

Reglugerðin gildir ekki um erfðabreytt matvæli og fóður sem innihalda efni úr erfðabreyttum lífverum í hlutfalli sem er 0,9% eða minna af viðkomandi erfðabreytta efni ef það er sannarlega tilkomið vegna óhjákvæmilegra tilfallandi eða tæknilegra ástæðna. Einnig gildir reglugerðin ekki um matvæli og fóður sem eru framleidd með hjálp erfðabreyttra lífvera (dæmi ensím framleidd í erfðabreyttum örverum) og fóðrun dýra á erfðabreyttu fóðri veldur því ekki að afurðir dýranna teljist erfðabreyttar.


Getum við bætt efni síðunnar?