Fara í efni

Matvælastofnun tekur við forðagæslu

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.


  
Þau tímamót urðu í lok júní að MAST tók að fullu við búfjáreftirliti, söfnun forðagæsluskýrslna, úrvinnslu og afgreiðslu gagna um fjölda búfjár og fóðuröflun í landinu, af Bændasamtökum Íslands.Frá ársbyrjun 2006 höfðu Bændasamtökin sinnt þessu opinbera hlutverki í umboði og samkvæmt beiðni MAST eftir lagabreytingu, en fram að því höfðu samtök bænda á ýmsum tímum ætíð haft umsjón með forðagæslumálum, allt frá fyrstu lagsetningum um þessi efni seint á 19. öld og snemma á þeirri 20. Búfjáreftirlitsmenn munu því framvegis njóta handleiðslu MAST og þaðan munu haustskýrslur berast bændum og öðrum búfjáreigendum í haust.
 
Við þessi tímamót skrifaði Ólafur R. Dýrmundsson Matvælastofnun bréf sem fylgdi skrá yfir alla búfjáreigendur er fengu athugasemdir við vorskoðun, þar sem settar eru fram nokkrar ábendingar. Slík skrá hefur raunar verið tekin saman fyrir undanfarin fjögur ár en á henni hafa að jafnaði verið á þriðja hundrað býli. Þar vekur sérstaka athygli að hluti þessara býla er á skrá ár eftir ár og þar eru líka býli sem hafa hlotið viðurkenningu fyrir gæðastýringu.

Greinilega er úrbóta þörf og má geta þess að nú fer fram endurskoðun dýraverndarlaga sem síðar leiðir væntanlega til endurskoðunar laga um búfjárhald en þau mynda grunn að reglum um búfjáreftirlit í landinu.

/bondi.is


Getum við bætt efni síðunnar?