Fara í efni

Matvælastarfsemi undir smáræðismörkum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Gefin hefur verið út reglugerð nr. 580/2012

 um framleiðslu og markaðssetningu aðila undir smáræðismörkum á matvælum og afhendingu frumframleiðenda á litlu magni matvæla beint til neytenda og staðbundina smásölufyrirtækja. Reglugerðin er sett í kjölfarið á breytingum sem Alþingi gerði í vor á lögum um matvæli (nr. 93/1995).

Reglugerðinni er ætlað að ná yfir margvíslega markaðssetningu á matvælum, t.d. basara þar sem heimatilbúin matvæli er seld, veitingasölu hjá félagasamtökum og íþróttafélögum á hátíðum og kappleikjum og sölu á matjurtum og villibráð í litlu magni.

Reglugerðin tekur í fyrsta lagi til sölu eða afhendingu matvæla þar starfsemin er ekki samfelld heldur tilfallandi, lýtur ekki sérstöku skipulagi og er ekki rekin í eigin hagnaðarskyni. Í öðru lagi tekur reglugerðin til sölu á frumframleiðsluvörum úr jurtaríkinu sem framleiddar eru í litlu magni og markaðssettar eru beint til neytenda eða staðbundinna smásölufyrirtækja og í þriðja lagi nær reglugerðin til frumframleiðenda sem eru ekki með samfellda starfsemi eða sérstakt skipulag.

Aðilar sem falla undir reglugerðina verða að tryggja að matvæli sem þeir framleiða og markaðssetja séu örugg og ekki heilsuspillandi eða óhæf til neyslu. Þeim ber þannig að uppfylla ákvæði reglugerðar nr. 102/2010, þ.m.t. að haga starfsemi sinni þannig að hún uppfylli allar meginreglur um hollustuhætti og tryggja að matvælin óhreinkist ekki eða spillist á annan hátt.

Fram að þessu hafa allir aðilar sem dreifa matvælum þurft að sækja um leyfi til Heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga um leyfi til að framleiða og selja matvæli, með setningu reglugerðarinnar verður slíkt ekki nauðsynlegt. Hins vegar verður heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga heimilt að sinna eftirliti og beita þvingunarúrræðum ef nauðsyn krefur.

Samhliða reglugerðinni hefur Matvælastofnun gefið út leiðbeiningar þar sem hugtökin einkasvið, smáræðismörk og frumframleiðendur/frumframleiðsluvörur eru kynnt. Jafnframt er lýst hvað einkennir matvælastarfsemi sem fellur undir þessi hugtök og hvaða reglur gilda um þessa starfsemi. Í leiðbeiningunum eru tiltekin dæmi um hvað fellur undir smáræðismörk, hver ábyrgð neytenda og seljanda sé, hvernig opinberu eftirliti er háttað o.s.frv. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?