Fara í efni

Matvælafrumvarpið og smitsjúkdómar í búfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 
Í 2. tölublaði Bændablaðsins frá 28. janúar sl birtist grein með þessu heiti eftir Sigurð Sigurðarson dýralækni og Sigtrygg Jón Björnsson. Greinin er að mörgu leyti fróðleg, en fyrirsögnin er villandi og því er þörf á að leiðrétta nokkur helstu atriði í því sambandi.

Innflutningur á lifandi dýrum er og verður áfram óheimill þrátt fyrir þær breytingar sem gera þarf á EES samningnum vegna innleiðingar á nýrri matvælalöggjöf ESB, en íslensk stjórnvöld hafa talið nauðsynlegt að innleiða hana vegna hagsmuna landsins varðandi útflutning sjávarafurða.

Því er ljóst að samþykkt matvælafrumvarpsins mun ekki auka hættuna á innflutningi á sjúkdómunum fjárkláða, bráðapest, garnaveiki, riðu og mæðiveiki, sem berast fyrst og fremst með lifandi dýrum. Hvað varðar miltisbruna og kúariðu þá er talið að þeir sjúkdómar berist fyrst og fremst með kjöt- og beinamjöli, miltisbruni reyndar líka með ósútuðum húðum. Í ESB samningunum frá október 2007 var samið sérstaklega um að Ísland myndi halda sínu áratuga langa banni við innflutningi á kjöt- og beinamjöli og um innflutning á húðum munu gilda sérstakar sóttvarnarreglur.

Í lokaorðum greinarinnar er því haldið fram að Ný–Sjálendingar  banni alfarið innflutning á hráu kjöti. Það er alrangt. Þeir eins og mörg önnur lönd, svo sem Bandaríkin, Kanada, ESB og Ísland hafa sérstakar reglur um slíkan innflutning og hrátt kjöt er ekki samþykkt nema frá þeim löndum sem eru með sambærilega löggjöf og eftirlit varðandi lifandi dýr, dýrasjúkdóma og framleiðslu búfjárafurða. Bandaríkin viðurkenna t.d. aðeins innflutning á hráu kjöti frá tæplega 40 löndum í heiminum, Íslandi þar á meðal. Hér á landi hafa lengi verið í gildi reglur um innflutning á hráu kjöti. Það er í raun bannað, en undanþágur gefnar að uppfylltum ýmsum skilyrðum, svo sem að kjötið komi frá vinnslustöðvum sem hafa viðurkenningu ESB eða USA.  Þessa viðurkenningu fá lönd og vinnslustöðvar ekki nema að undangengnu ströngu eftirliti viðkomandi eftirlitsstofnana þessara landa, eins og við þekkjum vel hér á landi.

Með innleiðingu matvælalöggjafar ESB eru Íslendingar í raun að samþykkja áfram að miða innflutning okkar við eftirlit ESB varðandi framleiðslu á búfjárafurðum. Breytingin er sú að nú verður slíkur innflutningur auðveldari og þarfnast ekki sérstakrar undanþágu landbúnaðararáðherra að fengum meðmælum yfirdýralæknis. Í reynd hefur slíkur innflutningur frá ESB ríkjum aukist mikið á undanförnum árum, enda öllum skilyrðum þar að lútandi verið fylgt og ekki til þess vitað að heilsutjón á mönnum eða dýrum hafi hlotist af.

Niðurstaða

Í samræmi við grein undirritaðs í 9. tölublaði Bændablaðsins 2008 þá er ekki talin mikil aukin áhætta á að búfjársjúkdómar berist til landsins vegna innleiðingar á nýrri matvælalöggjöf ESB.  Meiri hætta liggur hins vegar í að heilsu almennings geti stafað viss hætta  af breytingunum t.d. vegna innflutnings á fersku kjúklingakjöti, sem geti innihaldið kamfýlóbakter sýkla, en unnið hefur verið að því, frá því að frumvarpið var fyrst lagt fram að styrkja varnir þ.a.l. Þá ber einnig að geta þeirrar hættu sem getur stafað af ólöglegum innflutningi á búfjárafurðum.

Með þessari umfjöllun er hvergi verið að draga úr mikilvægi þess fyrir íslenskan landbúnað að búa með nær sjúkdómalausa búfjárstofna og áfram þarf að standa vörð um þá mikilvægu hagsmuni. Komi til þess að Ísland sæki um aðild að ESB, sem undirritaður tekur enga afstöðu til, þá er mjög mikilvægt að í samningsmarkmiðum okkar verði áfram krafa um bann við innflutningi lifandi dýra. Hjá Matvælastofnun er stöðugt unnið að því  að undirbyggja þessa kröfu með töku sýna úr íslensku búfé og rannsóknum á þeim til að sanna með vísindalega viðurkenndum gögnum hver sérstaða þess er varðandi búfjársjúkdóma. Þessar rannsóknir voru  upphaflega liður í mótvægisaðgerðum vegna samninganna frá október 2007 um breytingu á EES samningnum, og tilgangurinn var sá að rannsaka búfé á Íslandi með tilliti til sjúkdóma sem ekki hafa greinst hér á landi en gætu hugsanlega borist með auknum innflutningi á dýraafurðum. Þessi vinna mun því einnig gagnast þegar til framtíðar er litið vegna hugsanlegra aðildarsamninga.

Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir


Getum við bætt efni síðunnar?