Fara í efni

Matur og meðganga

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Með tilkomu bæklingsins eru komnar út fyrstu opinberu ráðleggingarnar sem gefnar eru til barnshafandi kvenna, en efni bæklingsins nær einnig til kvenna sem eru að skipuleggja barneignir, sem og til kvenna sem eru með börn á brjósti. Þessar ráðleggingar koma að mörgum atriðum s.s. æskilegri þyngdaraukningu á meðgöngu, mataræði, hreinlæti, hreyfingu, áfengi og reykingum.


Markhópur bæklingsins er allar konur á barneignaraldri, enda sýna rannsóknir að næringarástand móður er mjög mikilvægt við upphaf meðgöngu. Eins hefur þyngd fyrir meðgöngu mikið að segja og eru miklu minni líkur á fylgikvillum á meðgöngu og í fæðingu ef hin verðandi móðir er í kjörþyngd fyrir þungun. Fleiri atriði skipta máli s.s. að taka fólasíntöflur reglulega fyrir þungun, þar sem rannsóknir hafa sýnt að fólasín dregur úr hættu á alvarlegum fósturskaða á miðtaugakerfi.


Almennar ráðleggingar Manneldisráðs um mataræði eiga einnig við meðan á meðgöngu stendur. Þörf fyrir ákveðin næringarefni eykst á meðgöngu sem nánar er fjallað um í bæklingnum. Eins eru ráðleggingar um hvaða fisktegundir og sjávarafurðir beri að takmarka neyslu á að einhverju eða öllu leyti. Þetta á við fyrir konur sem eru að skipuleggja barneignir, konur sem eru barnshafandi og konur sem eru með börn á brjósti. Lögð er áhersla á hreinlæti, bæði persónulegt og þegar matvæli eru meðhöndluð. Barnshafandi konum er einnig ráðlagt að borða ekki hráan fisk, hrátt kjöt, hrá egg eða ógerilsneydda mjólk. Það er vegna þess að örverur sem drepast við venjulega hitun (kjarnhita 75°C) geta valdið fóstrinu skaða þegar óhitaðra matvæla er neytt.


Í bæklingnum er einnig sagt frá því hvað beri að varast á ferðalögum erlendis, eins og mjúka osta og mygluosta og er það vegna þess að við gerð þeirra er oft notuð ógerilsneydd mjólk, sem eins og áður sagði getur innihaldið örverur skaðlegar fóstrinu.


Það er okkur mikið ánægjuefni að bæklingurinn skuli vera kominn út. Sérstaklega í ljósi þess að sé þessum ráðleggingum fylgt að öllu eða einhverju leyti, þá getur það verið góð forvörn gegn ýmsum kvillum og sjúkdómum á meðgöngu og í fæðingu. Auk þess stuðlar hann að aukinni vitneskju um hollt og gott mataræði, sem er móður og barni til góða, og jafnvel allri fjölskyldunni þar sem það á við.Getum við bætt efni síðunnar?