MAST gestgjafi vinnufundar um kverkeitlabólgu í hrossum
Kverkeitlabólga er alvarlegur sjúkdómur í hrossum sem veldur miklu tjóni á heimsvísu. Þó flest hross lifi sjúkdóminn af fylgir honum gríðarleg áþján þar sem eitlar í kverk hestanna bólgna og þrengja að öndun uns þeir opnast og grafa út. Hár hiti fylgir og lystarleysi auk annara einkenna um vanlíðan. Sjúkdómsvaldurinn, bakterían Streptococcus equi ssp. equi, er sérstaklega aðlöguð að hrossum og hefur þróað með sér einstaka eiginleika til að lifa með dýrategundinni og auka útbreiðslu sína. Þar á meðal er eiginleikinn til dulinnar sýkingar sem er ein helsta orsök þess hve illa gengur að uppræta sjúkdóminn.
Það eru umfram allt áhrifin á velferð hestanna sem kalla á nána samvinnu vísindamanna um fyrirbyggjandi aðgerðir gegn útbreiðslu sjúkdómsins. Matvælastofnun var gestgjafi alþjóðlegs vinnufundar um kverkeitlabólgu og aðrar streptókokkasýkingar í hrossum í byrjun mánaðar. Á fundinum voru kynntar niðurstöður allra helstu rannsókna á smitefninu sjálfu, aðferðum til greiningar, faraldsfræðilegum þáttum og möguleikum á bólusetningu og meðhöndlun, auk reynslunnar af því að beita mismunandi viðbragðsáætlunum til að hindra útbreiðslu sjúkdómsins við mismunandi aðstæður í mismunandi menningarheimum.
Fjölbreyttur hópur innlendra og erlendra vísindamanna sótti fundinn
Ísland er eina landið í heiminum þar sem kverkeitlabólga hefur aldrei greinst og þeirri sérstöðu viljum við halda. Faraldur smitandi hósta sem gekk yfir hrossastofninn hér á landi árið 2010 var þó af völdum skyldrar bakteríu, Streptococcus equi ssp. zooepidemicus (ST209). Sá bakteríustofn barst mjög líklega til landsins með ólöglegum innflutningi á notuðum mélum eða öðrum búnaði.
Kverkeitlabólga getur borist til landsins með sama hætti og smitandi hósti. Það er hestamanna að koma í veg fyrir þá ógn með því að fylgja reglum um smitvarnir við heimkomu eftir ferðalög til annara landa. Þeir sem stunda atvinnutengda starfsemi jöfnum höndum hér heima og erlendis þurfa að ganga á undan með góðu fordæmi. Hestaleigum og öðrum sem taka á móti erlendum hestaferðamönnum ber að kynna reglur um smitvarnir fyrir sínum viðskiptavinum og ganga eftir að þeim hafi verið fylgt áður en gestir eru boðnir velkomnir í hesthús eða annað návígi við hross. Sama á við um móttöku erlendra starfsmanna.
Þá er minnt á almennar skyldur til að tilkynna hverskyns grun um smitsjúkdóm til Matvælastofnunar. Skjót viðbrögð og góð samvinna við hestamenn eru afgerandi fyrir möguleika stofnunarinnar á að hindra útbreiðslu nýrra sjúkdóma í íslenska hrossastofninum.