Fara í efni

Lág tíðni kampýlóbakter í íslenskum kjúklingum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Kampýlóbaktersýkingar í mönnum eru ennþá algengasta súnan í Evrópu og er mengað kjúklingakjöt talin megin orsök þessara sýkinga í mönnum skv. skýrslu um súnur í Evrópusambandinu fyrir árið 2011.

Hérlendis eru allir kjúklingahópar vaktaðir með tilliti til kampýlóbakter með því að sýni eru tekin úr hverjum hópi tveimur til fimm dögum fyrir slátrun (eldissýni) og yfir sumartímann einnig við slátrun. Greinist kampýlóbakter í sýni, eru allar afurðir viðkomandi hóps frystar eða hitameðhöndlaðar. Með frystingu í a.m.k. tvær vikur tekst að minnka mengunina um meira en 90%. Fyrir kemur að kjúklingahópar smitast eftir að eldisssýni eru tekin en magn sýkla á kjöti úr hópum sem mengast seint á eldistímanum er mun minna en á kjöti úr hópum sem hafa smitast áður en eldissýnin eru tekin. Ef mengunin er yfir greiningarmörkum finnst hún í sýnum sem tekin eru við slátrun og viðeigandi ráðstafanir gerðar, þ.e.a.s. frysting eða hitameðhöndlun á kjötinu sem er ekki búið að dreifa.

Á síðustu tíu árum hefur íslenskum kjúklingaframleiðendum tekist, með aðstoð erlendra sérfræðinga, að minnka kampýlóbaktermengun í kjúklingahópum umtalsvert. Það hafa þeir m.a. gert með því að auka smitvarnir á búum og slátra fuglunum aðeins yngri. Síðan 2008 hafa yfir sumartímann verið sett flugnanet á loftinntök á eldishúsum á stórum kjúklingabúum, því rannsóknir hafa sýnt að flugur geta borið kampýlóbakter inn í kjúklingahúsin. Árangur þessarar aðferðar hefur vakið verðskuldaða athygli erlendis.

Sumarið er nú liðið og þar með tíminn sem mestar líkur eru á að finna kampýlóbakter í kjúklingum. Nýjustu niðurstöður eftirlits sýna að íslenskir kjúklingabændur hafa góða stjórn á því að ala fuglahópana sína án þess að þeir mengist af þessum algenga sýkli.

Í línuritinu hér að neðan má sjá að árin 2012 og 2013 var innan við 2% kjúklingakjöts á markaði mögulega mengað af kampýlóbaktersýklum. Á undanförnum 6 árum hefur það hlutfall ekki farið yfir 5% nema árið 2010, þegar mengunin var 5,4%. Einnig má sjá að fjöldi fuglaskrokka sem þurfti að frysta (fuglar sem greindust mengaðir í eldi) hefur að sama skapi lækkað. Í samanburði við önnur lönd telst þetta mjög góður árangur.

Matís hefur nýverið birt skýrslu um rannsókn á kampýlóbaktermengun í afurðum kjúklinga á markaði. Rannsóknin var gerð á tólf mánaða tímabili frá árinu 2012 til 2013. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við niðurstöður eftirlits Matvælastofnunar á kampýlóbaktermengun í kjúklingaeldi.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?