Fara í efni

Inflúensa í svínum á Norður-Írlandi af völdum veirunnar a H1N1

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

 


 
Svínainflúensa af völdum inflúensuveiru A H1N1 var staðfest á svínabúi á Norður-Írlandi 16. september s.l. og nú um helgina var sýking staðfest á öðru búi. Um 90% af svínunum á viðkomandi búum hafa veikst en aðeins 0.1% drepist. Takmarkanir hafa verið settar á búin sem beinast að því að koma í veg fyrir að sýkingin berist á önnur bú.

Svínainflúensa hefur aldrei greinst í svínum á Íslandi, hvorki hefðbundin veira né hið nýja afbrigði A H1N1 sem geisar nú meðal fólks. Til mikils er að vinna að viðhalda þessari góðu stöðu þar sem sýking gæti valdið svínabændum gífurlegu tjóni.    
 
Matvælastofnun hefur beint tilmælum til svínabænda um að herða smitvarnir á búum sínum, m.a. að takmarka aðgang fólks í svínahúsin eins og kostur er og mælst er til að fólk með inflúensueinkenni sé ekki að vinnu í svínahúsum.

Mikilvægt er að svínabændur séu vakandi fyrir inflúensueinkennum í svínunum. Einkennin koma skyndilega fram í stórum hluta svínanna á búinu. Þau fá háan hita (>40°C), hreyfa sig lítið og hafa litla átlyst. Kvef og hósti er algengur. Eftir þriggja til sex daga veikindi ná svínin sér fljótlega og viku eftir að fyrstu einkenni sáust er átlyst í hópnum oftast orðin eðlileg.

Árlega eru tekin blóðsýni til skimunar fyrir ákveðnum smitsjúkdómum í svínum. Rannsókn á sýnum sem tekin hafa verið á þessu ári verður hraðað.

Matvælastofnun hefur óskað eftir því við sóttvarnalækni að starfsfólk á svína- og alifuglabúum, dýralæknar og búfjáreftirlitsmenn verði í hópi þeirra fyrstu sem boðið verður að láta bólusetja sig gegn inflúensu A H1N1. Megin ástæða þeirrar beiðni er draga úr hættu á smiti frá fólki í svín og alifugla, og þar með þeim alvarlegu afleiðingum sem það gæti haft.

Tilraunastöð HÍ að Keldum og Matvælastofnun hafa stofnað sameiginlegan viðbúnaðarhóp vegna svínainflúensu, sem vinnur m.a. að viðbragðsáætlun, áhættu- og kostnaðarmati, í samvinnu við svínabændur, og fylgist grannt með stöðu mála.

Ítarefni
Getum við bætt efni síðunnar?