Fara í efni

Hvað er sveppaeitur(mykotoxín)

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Til eru nokkur hundruð tegundir sveppaeiturefna en tvö þeirra eru algeng vandamál í matvælum og eru það eiturefnin aflatoxín og okratoxín A. Erfitt getur reynst að koma í veg fyrir myndun eiturefnanna í kornvörum og öðrum vörum þegar hagstæð skilyrði eru í umhverfinu eins og hátt hita- og rakastig.
Margir myglusveppir framleiða eiturefni í matvælum sem þola hitun og jafnvel suðu.

Verkun eiturefnanna eru margvísleg og geta þau bæði valdið bráðum eitrunaáhrifum og haft langtímaáhrif á ýmis líffærakerfi. Sum sveppaeitur hafa áhrif á ónæmiskerfið, önnur geta haft ýmis varanleg skaðleg áhrif, og enn önnur geta haft stökkbreytandi og/eða krabbameinsvaldandi áhrif í ákveðnum móttækilegum tegundum dýra og geta einnig valdið bráðum eða krónískum sjúkdómum í heimilisdýrum, búfé og fólki. Í mörgum tilfellum eru áhrif sveppaeiturs á heilsu manna ekki þekkt og er ekki vitað hve stór skammtur eiturs hefur áhrif hana.

Aflatoxín

Aflatoxín er hópur efna sem eru lík í byggingu og eru þau framleidd af myglusveppunum Aspergillus flavus, A. nomius og A. parasiticus. Þessir sveppir vaxa við ákveðið hitastig og rakastig í matvælum og fóðri. Algengustu matvæli sem aflatoxin myndast í eru kornvörur, hnetur og fíkjur. Aflatoxin hefur einnig greinst í mjólk dýra sem neytt hafa mengaðs fóðurs.

Helstu tegundir aflatoxína eru aflatoxín B1, B2, G1 og G2. Venjulega greinast þau saman í matvælum og fóðri en í mismiklum hlutföllum þó. Aflatoxín B1 er venjulega í mestu magni og er það mest eitrað allra aflatoxína.

Rannsóknir hafa sýnt fram á að aflatoxín hafa krabbameinsvaldandi áhrif í tilraunadýrum. Faraldursfræðilegar rannsóknir hafa einnig gefið til kynna að sterkar líkur eru taldar á því að aflatoxín hafi áhrif á myndun krabbameins í lifur hjá mönnum.

Hámarksgildi fyrir aflatoxín

Hámarksgildi fyrir aflatoxín skv. reglugerð nr. 502/2003 og 662/2003 um gildistöku tiltekinna gerða Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum með síðari breytingum eru eftirfarandi:

Afurð

Hámarksviðmiðunargildi (míkróg/kg)

B1

B1+B2+G1+G2

M1

Jarðhnetur, hnetur og þurrkaðir ávextir

Jarðhnetur, hnetur og þurrkaðir ávextir og unnar afurðir úr þeim, ætlað beint til manneldis eða sem innihaldsefni í matvælum

2

4

-

Jarðhnetur sem flokka á eða meðhöndla með öðrum aflrænum aðferðum áður en þær eru notaðar til manneldis eða sem innihaldsefni í matvælum

8

15

-

Hnetur og þurrkaðir ávextir sem flokka á eða meðhöndla með öðrum aðferðum áður en þær eru notaðar til manneldis eða sem innihaldsefni í matvælum

5

10

-

Korn (þ.m.t. bókhveiti, fagopyrum sp.).

Korn (þ.m.t. bókhveiti, Fagopyrum sp.) og unnar afurðir úr því sem nota á beint til manneldis eða sem innihaldsefni í matvælum.

2

4

-

Korn (þ.m.t. bókhveiti, Fagopyrum sp.), sem á að flokka eða meðhöndla með öðrum aflrænum aðferðum, áður en þess er neytt eða það er notað sem innihalsefni í matvælum

2

4

-

Mjólk (hrámjólk, mjólk til framleiðslu á afurðum, að stofni til úr mjólk, og hitameðhöndluð mjólk.

-

-

0,05

Maís sem flokka á eða meðhöndla með öðrum aflrænum aðferðum áður en hann er notaður til manneldis eða sem innihaldsefni í matvælum

5

10

-

Krydd

Eftirfarandi kryddtegundir:

- Capsicum spp. (þurrkaðir ávextir þess, heilir eða malaðir, þ.m.t. eldpaprika (chilli), eldpaprikuduft, kajenpipar og paprika)

- Piper spp. (ávextir þess, þ.m.t. hvítur og svartur pipar)

- Myristica fragrans (múskat)

- Zingiber officinale (engifer)

- Curcuma longa (túrmerik

5

10

-

Okratoxín A

Okratoxín A myndast í fjölmörgum tegundum myglusveppa af ættkvíslunum Aspergillus og Penicillium. Dæmi um matvæli sem Okratoxín A hefur greinst í eru korn, belgjurtir, kaffibaunir og kakó. Sveppirnir ná að mynda eiturefnið annað hvort á plöntunum lifandi eða í geymslu. Okratoxín A hefur einnig greinst í lifur, nýrum og blóði spendýra sem neytt hafa mengaðs fóðurs.

Rannsóknir á dýrum hafa sýnt fram á að Okratoxín A minnkar ónæmisviðbrögð, getur haft varanleg skaðleg áhrif á heilsu og er mjög líklega krabbameinsvaldandi.

Hámarksgildi fyrir okratoxín A

Hámarksgildi fyrir okratoxín A skv. reglugerð nr. 502/2003 um gildistöku tiltekinna gerða Evrópusambandsins um aðskotaefni í matvælum eru eftirfarandi:

Afurð

Hámarksviðmiðunargildi

(míkróg/kg eða ppb)

Óunnið korn (þ.mt. óunnin hrísgrjón og bókhveiti)

5

Allar afurðir, unnar úr korni (þ.m.t. unnar kornafurðir og korn sem er ætlað beint til manneldis)

3

Þurrkuð vínaldin (rifsber og sólber, rúsínur og kúrennur

10

Grænt og brennt kaffi og kaffiafurðir, vín, bjór, þrúgusafi, kakó og kakóafurðir og krydd

-

Eftirlit með sveppaeitri í matvælum

Daglega berst Umhverfisstofnun fjöldi viðvarana frá löndum innan EES svæðisins gegnum viðvörunarkerfið RASFF (Rapid Alert System for Food). Kerfið byggist á vöktun í löndum EES svæðisins, yfirvöld taka sýni af ýmsum vörum og dreifa upplýsingunum til aðildarríkja ef eiturefnainnihald er yfir leyfilegum mörkum. Stór hluti tilkynninga varðar sveppaeitur í matvælum. Þegar ástæða þykir til eru vörur frá ákveðnum löndum stöðvaðar í tolli og innflutningur óheimilaður í öllum löndum EES, nema innflytjendur geti framvísað viðurkenndum vottorðum með niðurstöðum mælinga.



Getum við bætt efni síðunnar?