Hrossakjöt ekki notað í stað nautakjöts
Matvælastofnun hefur látið rannsaka íslenskar matvörur á markaði til að kanna hvort þær innihaldi hrossakjöt án þess að þess sé getið á umbúðum. Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að hrossakjöti hafði ekki verið blandað í vörurnar.
Vegna tilfella um íblöndun hrossakjöts í stað nautakjöts í matvörur í Evrópu ákvað Matvælastofnun að láta rannsaka íslenskar matvörur á markaði til að kanna hvort sambærilegt ástand væri hér á landi.
Í því skyni tók Matvælastofnun í síðustu viku 16 sýni af íslenskum matvörum í verslunum. Samkvæmt innihaldslýsingu innihéldu vörurnar m.a. nautakjöt, en engin þeirra hrossakjöt. Sýnin voru rannsökuð á Tilraunastöð HÍ á Keldum og á Matís ohf. Sjá töflu hér að neðan.
Öll sýni voru neikvæð með tilliti til þess hvort um íblöndun á hrossakjöti var að ræða í matvörurnar. Þó gaf eitt sýni, saltkjötshakk frá Fjarðarkaup, jákvæða svörun um það að hrossakjöt væri til staðar. Það sýni var sent í magngreiningu sem gaf neikvæða svörun. Skýringin á þessum mismun í svörum er hugsanlega sú að um sé að ræða óverulegar leifar af hrossakjöti í vinnslubúnaði, en það mun verða skoðað nánar af viðkomandi heilbrigðiseftirliti.
Matvælastofnun mun á næstu dögum fara nánar yfir þær vörur sem teknar voru til rannsóknar með tilliti til innihaldsefna og merkinga þeirra. Nánar verður greint frá niðurstöðum varðandi þessa þætti í næstu viku þegar þær upplýsingar liggja fyrir.
Matvælastofnun og heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga munu áfram fylgjast með vinnsluferlum, uppskriftum og merkingum matvæla í matvælafyrirtækjum í sínu reglubundna eftirliti.
# |
Tegund sýnis |
Framleiðandi/ábyrgðaraðili |
1 |
Ítalskar lambahakkbollur |
Kostur |
2 |
Hamborgarar |
Bónus |
3 |
Hakkbuff |
Norðlenska |
4 |
Nautabökur |
Gæðakokkar, Borgarnesi |
5 |
Hallarborgari |
Kjöthöllin |
6 |
Nautahakk |
Íslenska kjötfélagið |
7 |
Ungnautahakk |
Kostur |
8 |
Nautahakk |
Sláturfélag Suðurlands |
9 |
Saltkjötshakk |
Fjarðarkaup |
10 |
Lasagna, 1944 |
Sláturfélag Suðurlands |
11 |
Nautagrillsteik |
Kostur |
12 |
Frönsk hvítlauks panna með nautakjöti |
Krónan |
13 |
Lasagne, Bónus |
Sómi /Bónus |
14 |
Jumbó, kjötloka |
Jumbó |
15 |
Jumbó Roastbeef samloka |
Jumbó |
16 |
Ungnautahakk |
Krónan
|