Fara í efni

Hestainflúensa í hundum í Bandaríkjunum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Að undanförnu hafa borist fréttir frá Bandaríkjunum um breytingu á veirunni sem veldur inflúensu hjá hestum, A/equine 2 (H3N8), þannig að hún sýkir nú líka hunda. Fyrst var sýnt fram að slík sýking hefði átt sér stað í hundum í janúar 2004 og nú er gert ráð fyrir að sýkingin sé orðin nokkuð útbreidd meðal hunda í Bandaríkjunum. 

 

Veiran veldur öndunarfærasýkingu í hundum eins og hestum, og er talið að um 80% sýktra hunda fái sjúkdómseinkenni. Meðgöngutíminn er stuttur, 2 - 5 dagar og geta hundar smitað frá sér í 1 - 2 vikur þar á eftir. Loftsmit er helsta smitleiðin en veiran er viðkvæm og missir smithæfni sína fljótt í umhverfinu. Dánartíðni meðal hunda er metin 1 - 10 %.


Ekki hefur verið greint frá því að veiran hafi borist aftur úr hundum í hesta, enda hestainflúensa landlæg í Bandaríkjunum og flestir hestar þar bólusettir gegn veikinni. Hins vegar er vitað að veiran sem greinst hefur í hundum er mjög lík upprunalegu veirunni og því verður að álykta, þar til annað sannast, að hún hún geti borist í hross.


Innflutningur á hundum frá Bandaríkjunum getur því falið í sér hættu fyrir íslenska hrossastofninn ef ekki er gætt nægilegrar varkárni.


Sé það rétt að veiran geti borist úr hundum í hross og berist veiran í hross hérlendis má búast við að það geti leitt til faraldurs með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Tjón hrossaræktarinnar vegna tímabundinnar stöðvunar á allri starfsemi og útflutningi yrði umtalsvert auk þess sem hætt er við að einhver hross dræpust úr veikinni. Bólusetning gegn hestainflúensu er dýr og veitir aðeins takmarkaða vörn.


Yfirdýralæknir hefur því ákveðið að grípa til sérstakra varúðarráðstafana varðandi innflutning á hundum. Fyrirkomulagi einangrunar verður breytt og sjúkdómavarnir efldar. Blóðsýni til mótefnarannsókna verða tekin tvisvar úr öllum hundum á meðan á einangrun stendur og komi fram vísbendingar um að hundar séu smitaðir af hestainflúensu verður gripið til sérstakra aðgerða.


Það veldur ævinlega nokkrum áhyggjum þegar veira flytur sig með þessum hætti á milli dýrategunda. Augu vísindamanna hafa því beinst að hættunni á að sýkingin berist í menn en engin dæmi eru um það enn sem komið er. Það eru heldur engin dæmi þess að hestaveiran hafi sýkt fólk.


Birt á vef Yfirdýralæknis þann 19. október, 2005. 


Getum við bætt efni síðunnar?