Fara í efni

Hætta á búfjársjúkdómum?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.
Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til  breytinga á lögum vegna innleiðingar á matvælalöggjöf Evrópusambandsins (ESB). Þó að lagabreytingar þessar séu umfangsmiklar, sérstaklega á íslensku matvælalöggjöfinni,  þá hefur breyting á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim vakið hvað mesta athygli. Það eru þessi lög sem banna innflutning á hráu kjöti, nema að uppfylltum vissum skilyrðum ef sótt er um leyfi til þess, en nú stendur til að afnema þetta bann. Sumir telja að þessi breyting geti valdið því að dýrasjúkdómar berist til landsins, en í grein í Bændablaðinu þ. 14. maí kemst yfirdýralæknir, sem er forstöðumaður dýraheilbrigðissviðs MAST, að eftirfarandi niðurstöðu: "Eins og málum er nú háttað þá eru, að mati yfirdýralæknis, meiri líkur á að hingað berist framandi dýrasjúkdómar með fólki heldur en með löglega innfluttu hráu kjöti. Ekki eru miklar líkur á að  lýðheilsu verði stefnt í aukna hættu með umræddum breytingum, að því gefnu að gerðar verði ráðstafanir til að stemma stigu við innflutningi á kjúklingakjöti menguðu af kamfýlóbakter." Meðfylgjandi er grein yfirdýralæknis fyrir þá sem vilja kynna sér málið betur:

Innflutingur búfjárafurða


Nú liggur fyrir Alþingi frumvarp til  breytinga á nokkrum lögum sem varða m.a. matvæli og dýrasjúkdóma vegna innleiðingar á matvælalöggjöf Evrópusambandsins   ( ESB ). Þessi ESB löggjöf hefur verið lengi í smíðum og tekið miklum breytingum til batnaðar á undanförnum árum.  Lagabreytingarnar hér á landi eru nauðsynlegar sökum þess að Evrópusambandið setti fram skilyrði  um innleiðingu nýju löggjafar ESB, ef Ísland ætlaði að halda áfram að flytja út fisk og fiskimjöl í frjálsu flæði til Evrópusambandsins. Ella yrði íslenskur fiskur tekinn í skoðun á landamærastöðvum sambandsins, með tilheyrandi sýnatökum, rannsóknum og töfum. Það var því ekki um annað að ræða fyrir íslensk stjórnvöld en að semja við ESB um þessi mál. Í upphafi samningaferilsins var sett fram skýlaus krafa af Íslands hálfu að löggjöf um lifandi dýr yrði haldið fyrir utan samningana og samþykkti ESB það.

Þó að lagabreytingar þessar séu mjög umfangsmiklar, sérstaklega á íslensku matvælalöggjöfinni,  þá hefur breytingin á lögum um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim vakið hvað  mesta athygli. Það er í þessum lögum sem bannið við innflutningi á kjöti hefur verið og stendur nú til að afnema.  Þrátt fyrir þetta bann þá hafa á undanförnum árum verið veittar síauknar undanþágur af landbúnaðarráðuneytinu til innflutnings á hráu og frosnu kjöti, að fengnum meðmælum yfirdýralæknis. Ekki er til þess vitað að þessi innflutningur hafi valdið neinum vandamálum. Verði ofangreint frumvarp samþykkt nú á vorþinginu, þá hefur Ísland aðlögunartíma í 18 mánuði vegna nauðsynlegra aðgerða til innleiðingar löggjafarinnar. Að þeim tíma loknum eða um áramótin 2009 og 2010 mun geta hafist innflutningur, án sérstakrar heimildar ráðuneytisins, á því kjöti sem er löglega framleitt eða innflutt  í löndum ESB og Noregs og síðar einnig Sviss. Sviss er þessa mánuðina að semja við ESB á svipuðum nótum og Ísland, en þeir taka einnig  yfir löggjöf um lifandi dýr. Nauðsynlegt er að taka fram að umfang þessa innflutnings verður sennilega eins og hingað til, fyrst og fremst háð tollum.

Núverandi löggjöf um innflutning á kjöti mun því líklega haldast óbreytt fram til áramóta 2009 og 2010 og það gildir einnig um innflutning ferðamanna á kjöti og mjólkurvörum. Eftir aðlögunartímann gengur í gildi sérstök löggjöf ESB varðandi innflutning ferðamanna á ýmsum búfjárafurðum, þar sem ferðamenn mega þá taka það magn sem þeir vilja af  slíkum vörum frá ESB og Noregi, en ekki frá öðrum löndum, nema í ákveðnu magni frá fáeinum tilteknum löndum eins og Grænlandi og Færeyjum. En hér, eins og með innflutning á verslunarvöru munu tollar sennilega ráða ferðinni, þar sem ferðamenn mega bara koma með 3 kg af matvöru án þess að greiða af því toll.

Áhættumat varðandi dýrasjúkdóma

En víkjum nú að þeirri áhættu sem að ofangreindar breytingar geta haft í för með sér. Ef fyrst er skoðuð aukin áhætta á því að nýir dýrasjúkdómar geti borist til landsins, þá er sú hætta vissulega fyrir hendi. Mikilvægast er þó að breytingarnar munu ekki ná til lifandi dýra og þar mun Ísland áfram stjórna ferðinni, en það er með lifandi dýrum sem mest áhætta fylgir. En einhver áhætta mun fylgja hugsanlega auknum innflutningi á hráu og ófrosnu kjöti.  Því gerði yfirdýralæknir, áður en samningaferillinn við ESB hófst, ákveðnar kröfur um mótvægisaðgerðir hér á landi til að mæta þessari áhættu. Það var samþykkt og sérstakir fjármunir fengust í þessum tilgangi. Sérstök skimun vegna dýrasjúkdóma, sem ekki hafa greinst hér á landi og sem gætu hugsanlega borist með hráu kjöti, er þegar hafin og verður hluti af árlegri vöktunaráætlun Matvælastofnunar vegna dýrasjúkdóma. Það eru sem betur fer tiltölulega fáir dýrasjúkdómar sem eru þekktir fyrir að berast með hráu kjöti og þá aðallega skæðir sjúkdómar sem ekki leyna sér, ef þeir koma upp, svo sem gin- og klaufaveiki, fuglaflensa og svínapest.  Kúariða berst til dæmis ekki með hráu kjöti, aðeins með menguðu kjöt- og beinamjöli og sérstaklega var samið við ESB um varanleg ákvæði til að viðhalda áratuga löngu banni okkar á innflutningi þess. Í þessu sambandi er vert að geta þess að hér á landi hefur verið í gildi áratuga langt bann við fóðrun svína með matarleifum og svo er einnig í flestum löndum ESB, en slík fóðrun er þekkt smitleið þegar smitefni dýrasjúkdóma leynast í matarúrgangi.ESB hefur nú sett  umfangsmikla löggjöf og eftirlitskerfi með dýrasjúkdómum, sem allir yfirdýralæknar í ESB og Noregi, Sviss og Íslandi fá jafnóðum tilkynningar um. Komi slíkir sjúkdómar upp í ofangreindum löndum þá er samkvæmt þessu kerfi strax lokað fyrir útflutning á hráu kjöti og mjólk frá viðkomandi landsvæðum, því aðrar þjóðir í ofangreindum löndum eru auðvitað jafn hræddir og Íslendingar við að fá þessa sjúkdóma. Þjóðir eins og t.d. Danir eru mjög harðar í að fylgjast með að þessi kerfi virki í öllum ESB löndum með sannfærandi hætti, vegna útflutningshagsmuna sinna. Þjóðir eins og USA og Japan eru fljótar að loka á innflutning frá allri Evrópu, ef þær fá minsta tilefni til að treysta ekki dýrasjúkdómakerfum ESB. Það er því mikill munur að hafa ekki þurft að taka upp ofangreinda löggjöf fyrr en nú vegna viðskiptahagsmuna okkar með útflutning á fiski og fiskimjöli, þar sem löggjöfin og allt eftirlit með henni hefur tekið miklum framförum á síðustu árum.  Þó skal ekki reynt að halda því fram að það sé allt gallalaust frekar en annað og því eru okkar mótvægisaðgerðir til komnar.

Það er rétt að vekja athygli á því að þeir tveir dýrasjúkdómar sem vitað er um að hafi borist til landsins á undanförnum 10 árum eru án efa hingað komnir með fólki. Árið 1998 kom upp áður óþekktur vírus sjúkdómur í hestum sem síðar var kallaður Hitasótt. Hann var mjög smitandi en sem betur fer ekki mjög hættulegur okkar hestum, en breiddist út um allt land. Nær víst er að þessi sjúkdómur er landlægur í Evrópu án þess að valda þar vandræðum, utan þess að þekkt er að íslenskir hestar, sem fluttir eru út til Evrópu, veikjast fyrsta mánuðinn vegna ýmissa vírusa, sem þar eru landlægir. Sennilega hefur sjúkdómurinn borist hingað vegna þess að einhver ferðalangur var ógætinn og kom hingað í hesthús beint úr hesthúsum í Evrópu.

Hinn sjúkdómurinn kom upp í Eyjafirði á síðari hluta ársins 2007 og er kallaður Hringskyrfi  og er hvimleiður húðsjúkdómur af völdum sveppa, sem leggst fyrst og fremst á nautgripi, en getur borist í fólk, sem getur einnig verið smitberar í dýr. Hann hefur nú einnig greinst í Skagafirði. Sjúkdómurinn er landlægur í flestum löndum nema Íslandi.  Þessa sjúkdóms hafði áður orðið vart á árunum 1966 fyrir norðan og 1987 fyrir sunnan, en það tókst að útrýma honum með markvissum aðgerðum.  Í báðum tilfellum var hægt að rekja sjúkdóminn til þess að hann  hefði borist hingað með erlendu vinnufólki. Þótt ekki hafi enn tekist að rekja smitleiðir nú, þá er vart um annað að ræða en að það hafi verið með fólki sem kom erlendis frá. Einnig er staðfest tilfelli af berklum sem komu upp í nautgripum á skólabúi norðanlands fyrir meira en 40 árum. Talið var fullvíst að erlendur starfsmaður sem var berklaveikur hafi smitað nautgripina. Í þessu sambandi er vert að geta þess að það eru útlendingar sem í mörgum tilfellum vinna núna hér á landi við umhirðu dýra og slátrun þeirra og ef þetta fólk kemur frá löndum Evrópusambandsins þá þarf það ekki að ganga undir sérstaka heislufarsskoðun hér á landi áður en það hefur vinnu hér.

Áhættumat varðandi lýðheilsu

Í núgildandi löggjöf um innflutning búfjárafurða hefur ekki bara verið höfð hliðsjón af því að vernda  heilsu dýra, heldur mikil áhersla lögð á að vernda einnig lýðheilsu, t.d. gagnvart salmonellu, kamfýlóbakter og leifum af vaxtaraukandi efnum sem eru sum staðar enn notuð, þó ekki í löndum ESB, Noregs og Sviss. Stefnt er að því að vernd gegn salmonellu muni haldast óbreytt. En sú vernd gegn kamfýlóbakter í kjúklingakjöti, sem hefur fólgist í kröfunni um að allt innflutt kjöti skuli hafa verið fryst í a.m.k. 30 daga, fellur nú niður að loknum aðlögunartímanum. Í ofangreindu frumvarpi er ákvæði, sem tekið er beint úr Evrópulöggjöfinni sem gefur möguleikann á að beita sérstökum aðgerðum til að vernda heilsu fólks, sé talið að ákveðin matvæli beri með sér heilsuvá. Líklegt má telja að þessi ákvæði munu verða notuð ef á þarf að halda til að koma í veg fyrir innflutning á kjúklingakjöti sem mengað er kamfýlóbakter og gæti sett í hættu þann góða árangur sem Ísland hefur náð við að koma í veg fyrir veikindi fólks af völdum þessarar örveru.

Einnig er rétt að minnast á að tríkínur, sem eru örsmá sníkjudýr, geta leynst í kjöti, aðallega svína- og hrossakjöti. Þessi sníkjudýr hafa aldrei greinst í íslensku kjöti og sjaldgæft er að þau finnist í kjöti af eldisdýrum í löndum Evrópusambandsins. Sníkjudýr þessi geta verið banvæn berist þau í fólk og því er gífurleg áhersla lögð á eftirlit með þessu í kjötskoðun flestra landa. Suða og frost drepa  þessi sníkjudýr. Hér á landi hefur þó, enn sem komið er,  aðeins verið leitað eftir tríkínum í hrossakjöti ætluðu til útflutnings til Evrópu. Leit að tríkínum, við slátrun á  öllu hrossa- og svínakjöti  verður nú gerð að skyldu hér á landi. Tríkínur finnast helst í villisvínum sem veidd eru í skógum Mið- og Austur Evrópu. Varasamastar eru því alls konar hrápylsur, sem eru heimatilbúnar úr slíku kjöti, en pylsur sem eru löglega framleiddar til sölu eiga að vera af kjöti sem kemur úr sláturhúsum þar sem kjötið hefur verið prófað sérstaklega þar að lútandi. Ef svo slysalega vildi til að sníkjudýr þessi bærust í húsdýr okkar, þá ætti þeirra að verða strax vart í auknu eftirliti við kjötskoðun hér á landi í kjölfar nýju löggjafarinnar. Hér eftir sem áður verður mikil vörn í að neyta aðeins matvæla sem eru löglega framleidd hér á landi sem erlendis.

Niðurstaða

Eins og málum er nú háttað þá eru, að mati yfirdýralæknis, meiri líkur á að hingað berist framandi dýrasjúkdómar með fólki heldur en með löglega innfluttu hráu kjöti.

Ekki eru miklar líkur á að  lýðheilsu verði stefnt í aukna hættu með umræddum breytingum, að því gefnu að gerðar verði ráðstafanir til að stemma stigu við innflutningi á kjúklingakjöti menguðu af kamfýlóbakter.


Getum við bætt efni síðunnar?