Fara í efni

Gróf vanræksla á aðbúnaði, umhirðu og fóðrun á sauðfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þann 9. júní 2009 kærði Matvælastofnun ábúendur á lögbýli á Austurlandi til lögreglu vegna brota á dýraverndarlögum, reglugerð um aðbúnað og heilbrigðiseftirlit með sauðfé og lögum um búfjárhald og var ákæra gefin út af lögreglustjóra þann 9. nóvember 2009.



Mynd: Kyle McLea
  Ákært var fyrir að hafa vanrækt gróflega aðbúnað, umhirðu og fóðrun á skepnum bæði á lögbýli ákærðu og í fjárhúsi á annarri jörð sem ákærða var umráðamaður að með þeim afleiðingum að hluti fjárins reyndist verulega aflagður, horaður og grindhoraður. Þá var ákært fyrir að hafa vanrækt að tryggja góðan aðbúnað, umgengni og meðferð og fyrir að hafa ekki farið nægilega vel með sauðfé þar sem gólfum hússins var ekki haldið þurrum og næsta nágrenni fjárhúss var ekki þrifalegt. Þá fundust inni í fjárhúsunum 5 rolluhræ og 7 lambshræ en utan við húsið fundust tvö gömul rolluhræ. Við rannsókn lögreglu fundust einnig 2 hundshræ og beinagrind af hrossi við íbúðarhúsið og var einnig ákært fyrir þessa umgengni og meðferð.
 

Í ákæru er því lýst að óþefur hafi verið í lofti vegna rotnandi hræja.

Ábúandinn viðurkenndi fyrir dómi 15. desember s.l. að hafa framið öll þau brot sem honum var gefið að sök í ákæru. Í kjölfarið var gaf lögreglustjóraembættið ábúandanum kost á að ljúka málinu með því að gangast undir sekt að fjárhæð 80.000 kr. ella sæta fangelsi í 6 daga auk þess að greiða sakarkostnað að fjárhæð 203.310 kr. Ábúandinn féllst á þau málalok og dómari við héraðsdóm Austurland taldi þessi viðurlög hæfileg og lauk máli.

Fyrrgreind lýsing á meðferð dýranna er dapurleg og ljóst að umhirða og aðbúnaður skepnanna hefur ekki verið í neinu samræmi við eðlilega búskaparhætti eða lagafyrirmæli. Ef skoðuð eru dómsúrlausnir í dýraverndunarmálum síðustu misseri vekja viðurlög fyrir ofangreind brot ábúandans athygli. Sérstaklega þegar litið er til þess að dómstólar hafa fjórum sinnum á síðustu rúmlega þremur árum fjallað um mál tengd vanfóðrun og slæmum aðbúnaði búfjár og lauk þeim með dómi og sektarviðurlögum á bilinu 200.000 til 700.000 kr.

Að þessu sögðu telur stofnunin mikilvægt að dýraverndunarmálum ljúki með viðurlagaákvörðun, þannig að mál hafi ítrekunaráhrif ef mál sömu aðila komi fyrir dómstóla á nýjan leik. En skv. lögum um búfjárhald skal halda uppi sérstöku eftirliti með þeim aðilum þar sem gerðar hafa verið athugasemdir við aðbúnað, fóðrun og/eða merkingar búfjár á síðustu 15 mánuðum.

Að lokum vill stofnunin geta þess að hverjum sem verður var við illa meðferð á dýrum ber skylda að tilkynna það Matvælastofnun, héraðsdýralækni eða lögreglu. Sömuleiðis ber hverjum þeim sem verður var við að umráðamann búfjár skorti hús, fóður eða beit fyrir búfé sitt, hann vanfóðri það eða beiti það harðýðgi, að tilkynna það héraðsdýralækni.


Getum við bætt efni síðunnar?