Fara í efni

Grásleppuhrognakavíar – Synjun Matvælastofnunar staðfest

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í október 2015 synjaði Matvælastofnun tveimur fyrirtækjum um endurinnflutning á grásleppuhrognakavíar. Í nóvember 2015 kærðu fyrirtækin synjunina til atvinnuvega- og nýsköpunar-ráðuneytis og töldu hana óheimila. Í febrúar 2016 hafnaði hins vegar ráðuneytið endanlega beiðni fyrirtækjanna með sérstökum úrskurði sem staðfesti synjun Matvælastofnunar.

Vorið 2015 sendu framleiðendurnir tveir 2,5 tonn af umræddum kavíar áleiðis til Japans. Varan fór alla leið til Japans en gámnum með vörunni var snúið við aftur til Íslands án þess að vera tollafgreiddur í Japan sökum tæknilegra mistaka við framleiðslu á vörunni. Litur vörunnar var rangur en að öðru leyti var í lagi með vöruna. Varan kom til Íslands í septemberbyrjun en þá synjaði Matvælastofnun um endurinnflutning á vörunni. Stofnunin benti á að merkingum vörunnar væri mjög ábótavant. Allar upplýsingar um framleiðanda vörunnar vantaði á umbúðir vörunnar og varan væri ekki merkt með svonefndu „auðkennisnúmeri“ starfsstöðvarinnar. Varan hefði þannig verið vanmerkt þegar hún fór frá Íslandi og rekjanleiki því ekki tryggður.

Kærendur héldu því hins vegar fram að rekjanleiki væri að fullu tryggður. Meðal annars hefði gámurinn með vörunni verið innsiglaður er hann hélt úr höfn frá Íslandi vorið 2015 og hefði innsiglið ekki verið rofið fyrr en farmurinn kom aftur til landsins um síðsumars. Engar kröfur væru heldur gerðar í Japan um „auðkennisnúmer“ á vöru sem þessari.

Ráðuneytið vísaði bæði til laga um sjávarafurðir og eins til Evrópureglugerða sem innleiddar hafa verið á Íslandi. Samkvæmt þeim reglugerðum skal ekki setja afurð úr dýraríkinu á markað nema hún beri annað hvort heilbrigðis- eða auðkennismerki og skal merkið sett á vöruna áður en hún er send frá upphaflegri starfsstöð. Bæði lög um sjávarafurðir og lög um matvæli beri að skýra í samræmi við framangreinda reglu. Varan uppfylli því ekki skilyrði íslenskra laga og reglugerða settum með stoð í þeim til að koma eða fara frá landinu vegna þessarar vanrækslu. Ábyrgðin hvíli á stjórnendum þeirra matvælafyrirtækja sem í hluta eiga. Varan hafi ekki verið merkt með auðkennisnúmeri starfsstöðvar og þegar af þeirri ástæðu uppfylli varan ekki framangreinda löggjöf og því sé endurinnflutningi hafnað og ákvörðun Matvælastofnunar þar með staðfest.


Getum við bætt efni síðunnar?