Gin- og klaufaveiki í Ungverjalandi
Ungverjaland tilkynnti í dag um að gin- og klaufaveiki hafi greinst á stóru nautgripabúi nálægt landamærum að Slóvakíu. Gin- og klaufaveiki er mjög alvarlegur og bráðsmitandi dýrasjúkdómur. Strangar ráðstafanir hafa verið gerðar af hálfu ungverskra dýraheilbrigðisyfirvalda og Evrópusambandsins til að hindra útbreiðslu veirunnar. Matvælastofnun vill minna fólk á að gæta ávallt hreinlætis í umgengni við dýr erlendis, þrífa skófatnað og þvo föt sem hafa verið í snertingu við dýr, áður en komið er heim. Jafnframt er gífurlega mikilvægt að gæta þess að klaufdýr komist ekki í óhitameðhöndluð matvæli.
Fyrir nokkrum dögum komu í ljós dæmigerð sjúkdómseinkenni gin- og klaufaveiki í gripum á búi með um 1400 nautgripi í Ungverjalandi. Sýni voru tekin og veikin staðfest. Yfirdýralæknir landsins fyrirskipaði þegar einangrun búsins og faraldsfræðilega rannsókn. Mjög strangar varúðarráðstafanir hafa verið gerðar til að hindra útbreiðslu smitsins, þar á meðal bann við flutningi lifandi klaufdýra.
Gin- og klaufaveiki hefur ekki greinst í Ungverjalandi í meira en 50 ár og hún er ekki til staðar í neinu öðru ríki Evrópusambandsins. Hún er aftur á móti landlæg í mörgum löndum heims og smit getur borist með ýmsum hætti milli landa. Ein algengasta smitleiðin eru ólöglega innflutt matvæli. Gin- og klaufaveiki greindist í Þýskalandi í upphafi þessa árs og hafði þá ekki greinst í Evrópusambandsríki síðan 2011. Aðgerðir í Þýskalandi tókust vel og veiran var fljótt upprætt. Engin þekkt tenging er milli smitsins í Þýskalandi og þess sem nú kom upp í Ungverjalandi.
Veikin leggst aðeins á klaufdýr, t.d. nautgripi, sauðfé, geitur og svín. Hún veldur sýktum dýrum skelfilegum þjáningum. Meðal einkenna eru blöðrur og sár í munnholi, í kringum munn og nasir, á spenum og á milli klaufna. Dýrin verða því fljótt treg að éta vegna sársauka í munni og stirð í hreyfingum vegna eymsla í fótum.
Viðbrögð við uppkomu veikinnar í Evrópusambandsríkjum og öðrum löndum þar sem hún er ekki landlæg, eru fyrst og fremst að aflífa öll móttækileg dýr í þeirri hjörð sem sýkingin greinist í og jafnvel nágrannabúum í varúðarskyni.
Jafnframt eru fyrirskipuð ýmis konar höft á tilgreindu svæði umhverfis sýktan stað, m.a. bann við flutningi á dýrum og öllu sem borið getur smitið. Dýr á svæðinu eru skoðuð og smitið rakið. Kostnaður vegna aðgerða getur orðið gífurlega mikill.
Eins og fyrr segir er um bráðsmitandi sjúkdóm að ræða og veiran sem honum veldur er mjög harðger. Hún getur borist tugi kílómetra með lofti og einnig með fólki, hlutum, farartækjum og fleiru sem hefur verið í nálægð við sýkt dýr. Síðast en ekki síst getur veiran borist með óhitameðhöndluðu kjöti sem mengast hefur af veirunni.
Það skal tekið fram að gin- og klaufaveikiveiran sýkir ekki fólk og fólki stafar því engin hætta af umgengni við sýkt dýr né neyslu afurða.
Matvælastofnun vill minna fólk á að gæta ávallt hreinlætis í umgengni við dýr erlendis, þrífa skófatnað og þvo föt sem hafa verið í snertingu við dýr, áður en komið er heim. Sérstaklega á þetta við fólk sem á sjálft dýr eða starfar í tengslum við dýr. Jafnframt er gífurlega mikilvægt að gæta þess að klaufdýr komist ekki í óhitameðhöndluð matvæli.
Nýlega var gefin út og birt á heimasíðu Matvælastofnunar Handbók um viðbrögð við gin- og klaufaveiki. Í henni eru ýmsar upplýsingar um veikina og viðbrögð við henni. Hana er að finna ásamt fleiri skjölum sem tengjast viðbrögðum við gin- og klaufaveiki á upplýsingasíðu Matvælastofnunar um viðbrögð við dýrasjúkdómum.
Nánari upplýsingar um tilfellið í Ungverjalandi er m.a. að finna á heimasíðu National Food Chain Safety Office (Nébih).