Fara í efni

Garnaveiki greinist á héraði

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Garnaveiki hefur greinst á sauðfjárbúinu Refsmýri í Fellum á Austurlandi. Þetta er í fyrsta sinn sem veikin greinist á bænum en hann er í Héraðshólfi sem er þekkt garnaveikisvæði. Garnaveiki er ólæknandi smitsjúkdómur í jórturdýrum, en með bólusetningu er hægt að verja sauðfé fyrir sjúkdómnum og halda smitálagi í lágmarki. Á bæjum sem garnaveiki greinist á gilda ýmsar takmarkanir sem lúta að því að hindra smitdreifingu.

Tekið var eftir veiklegri kind á túni fyrr í mánuðinum. Ánni var lógað í samráði við eiganda og sýni sent til greiningar á Keldum. Sýnið reyndist jákvætt fyrir garnaveiki.

Þetta er í annað sinn á þessu ári sem garnaveiki greinist í varnarhólfinu. Garnaveiki greindist á Blöndubakka í Hróarstungu um mitt sumar. Það er þriðja staðfesta greiningin í sauðfé á bænum og hefur eitt tilvik verið staðfest í nautgripum. 

Orsök sjúkdómsins er lífseig baktería af berklaflokki (Mycobacterium paratuberculosis). Helstu einkenni hennar eru hægfara vanþrif með skituköstum. Í þeim hjörðum sem veikin kemur upp getur einnig verið þó nokkuð um „heilbrigða smitbera“. Meðgöngutími í sauðfé er 1-2 ár eða lengri. Garnaveikibakterían veldur bólgum í mjógörn og oft einnig í langa, ristli og lifur. Sýklarnir berast út með saurnum og geta lifað í 1- 1 ½ ár í óhreinindum og pollum umhverfis gripahús, við afréttargirðingar, í sláturúrgangi og í líffærum skepna sem drepast út um haga. Sýking verður um munn með saurmenguðu fóðri og vatni.

Um garnaveiki og varnir gegn henni gildir reglugerð nr. 911/2011. Markmið hennar er að stuðla að útrýmingu garnaveikinnar. Í reglugerðinni eru m.a. ákvæði um þær takmarkanir sem gilda um garnaveikibæi. Þar á meðal er að óheimilt er að láta til lífs sauðfé, geitur eða nautgripi í 10 ár frá síðustu greiningu á garnaveiki eða vanrækslu á bólusetningu. Mikilvægt er að huga að því að smit getur borist með landbúnaðartækjum, heyi, áburði o.fl. en flutningur á öllu slíku frá garnaveikibæjum er einnig óheimill. Reglugerðin kveður einnig á um skyldu til bólusetningar sauðfjár á tilteknum svæðum á landinu, þ.á.m. í Héraðshólfi. Sinni eigandi sauðfjár ekki skyldu sinni til bólusetningar getur Matvælastofnun fyrirskipað bólusetningu fjárins á kostnað eiganda. 

Matvælastofnun birtir lista yfir garnaveikibæi sem aðgengilegur er á vef stofnunarinnar.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?