Fréttir á vef MAST vegna stjórnvaldsákvarðana í mars 2024
Sláturhús sektað vegna brota á dýravelferð.
Matvælastofnun hefur lagt 90.000 kr. stjórnvaldssekt á kjúklingasláturhús á Suðurlandi. Í fimm skipti á árinu 2023 voru sýnilega slasaðir kjúklingar hengdir upp í sláturlínu í umræddu húsi en slíka kjúklinga á að aflífa strax. Brotin uppgötvuðust eftir slátrun við eftirlit stofnunarinnar.
Kúabú svipt mjólkursöluleyfi.
Matvælastofnun gefur út starfsleyfi til kúabúa. Gæði mjólkur reyndust ófullnægjandi á kúabúi á Suðurlandi. Búið var svipt umræddu leyfi og fær ekki leyfið að nýju fyrr en uppfylltar verða kröfur um mjólkurgæði í 1. flokki í tvær vikur samfleytt.
Dagsektir lagðar á kúabú vegna brota á dýravelferð.
Matvælastofnun hefur lagt dagsektir á kúabú á Suðurlandi til að þvinga bóndann til úrbóta á dýravelferð. Of mikill þéttleiki reyndist vera í stíum, klaufhirðu ábótavant og kálfar hafðir bundnir. Dagsektir að upphæð 15.000 kr. á dag verða innheimtar uns bætt hefur verið úr.
Dagsektir lagðar á hrossa- og sauðfjárbú vegna brota á dýravelferð.
Matvælastofnun hefur lagt dagsektir á bú á Norðausturlandi til að þvinga bóndann til úrbóta á dýravelferð. Aðgang skorti að drykkjarvatni, hreinleika dýra og legusvæði áfátt o.fl. Dagsektir að upphæð 10.000 kr. á dag verða innheimtar uns bætt hefur verið úr.
Sláturhús sektað vegna brota á dýravelferð.
Matvælastofnun hefur lagt 145.000 kr. stjórnvaldssekt á sláturhús á Suðvesturlandi vegna fráviks við aflífun á grís.