Fara í efni

Frestur vegna aðlögunar að nýrri reglugerð svína útrunninn

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í gær rann út frestur svínabænda til að óska eftir aðlögunartíma til að uppfylla kröfur nýrrar reglugerðar um velferð svína sem lúta að húsakosti og hreyfingu, hvíld og þörfum dýranna.

Ný reglugerð um velferð svína hefur það að markmiði að bæta velferð svína meðal annars með því að afnema svínahald á básum. Svínaframleiðendur höfðu kost á að sækja um frest til aðlögunar að skilyrðum 7. og 15. gr. reglugerðarinnar til 1. október 2015, ef aðstæður eru þannig að kostnaðarsamt er fyrir viðkomandi framleiðanda að uppfylla kröfur reglugerðarinnar. Reglugerðin tilgreinir að frestir eru háðir því að framleiðandi skili inn tímasettri úrbótaáætlun og kostnaðarmati. Einnig er Matvælastofnun óheimilt eftir 1. janúar 2016 að veita undanþágu til notkunar á básum sem varanlegum vistarverum gyltna nema básarnir séu þannig að gyltan geti lagst, legið og rétt úr sér liggjandi án átroðnings frá gyltum í næstu básum.

Fjöldi umsókna um frest til aðlögunar hefur borist, ásamt úrbótaáætlunum. Matvælastofnun mun leggja mat á þær úrbótaáætlanir sem lagðar hafa verið fram m.t.t. skilyrða stofnunarinnar. Ef stofnunin telur úrbótaáætlanir fullnægjandi og að önnur skilyrði til veitingar undanþágu séu uppfyllt mun Matvælastofnun veita fresti til aðlögunar. Lengd fresta verður metin út frá aðstæðum á hverju búi fyrir sig, en Matvælastofnun skal skv. reglugerðinni ekki veita lengri fresti en til 1. janúar 2025.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?