Fara í efni

Fræðslufundur: Ný matvælalöggjöf og áhrif á bændur

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun heldur fræðslufund um nýja matvælalöggjöf og áhrif hennar á bændur þriðjudaginn 1. nóvember  2011 kl. 15:30 - 16:30 á Hvanneyri. Á fundinum verður fjallað um nýja löggjöf um framleiðslu búfjárafurða sem tekur gildi 1.nóvember n.k. Jafnframt verður fjallað um breytingar á umdæmum héraðsdýralækna og dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum.

Ný matvælalöggjöf um hollustuhætti og eftirlit á Evrópska efnahagssvæðinu tók gildi á Íslandi 1. mars 2010 fyrir fóður- og matvælafyrirtæki nema fyrirtæki sem vinna afurðir úr búfjárafurðum. Sá hluti löggjafarinnar sem snýr að búfjárafurðum kemur til framkvæmda 1. nóvember n.k. Á sama tíma verður umdæmisskrifstofum Matvælastofnunar fækkað úr 14 í 6. Breytingar verða gerðar á opinberu eftirliti héraðsdýralækna og dýralæknaþjónustu til að koma í veg fyrir hugsanlega hagsmunaárekstra. Það verður gert með því að aðskilja opinbert eftirlit héraðsdýralækna frá almennri dýralæknaþjónustu.

Þessar lagabreytingar munu hafa áhrif á þá sem rækta fóður og framleiða og/eða dreifa dýraafurðum. Lögin ná til bænda sem ala dýr og þeirra sem rækta, nota eða dreifa grænmeti til manneldis eða korni og grasi til fóðurgerðar. Markmið löggjafarinnar eru meðal annars að tryggja rekjanleika matvæla og fóðurs og að afurðir á markaði uppfylli gæða- og heilnæmiskröfur. Henni er ætlað að ná yfir alla matvælaframleiðslu frá haga til maga með nauðsynlegum skráningum og varúðarráðstöfunum á öllum stigum framleiðslunnar.

Á fræðslufundinum verður farið yfir það hvað þessar breytingar þýða fyrir bændur sem ala dýr, rækta fóður og/eða rækta grænmeti. Fjallað verður um kröfur löggjafarinnar um skráningar, merkingar og hollustuhætti, ásamt breytingu á umdæmisskipan héraðsdýralækna-þjónustu og nýútgefna reglugerð um dýralæknaþjónustu í dreifðum byggðum. Jafnframt verður fræðsluefni um áhrif nýrrar matvælalöggjafar á bændur dreift til viðstaddra.

Hægt verður að fylgjast með fræðslufundinum í beinni útsendingu á vef MAST undir Útgáfa - Fræðslufundir. Þar verður einnig birt upptaka að fræðslufundi loknum.

Fyrirlesarar

  • Halldór Runólfsson, yfirdýralæknir hjá Matvælastofnun
  • Sigurður Örn Hansson, forstöðumaður hjá Matvælastofnun

Fræðslufundurinn verður haldinn í Ársal Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri (Ásgarði). Allir velkomnir!

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?