Fara í efni

Fleiri starfandi þjónustudýralæknar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Hinn 1. nóvember 2011  voru gerðar breytingar á dýralæknakerfinu. Þá tóku sjálfstætt starfandi dýralæknar við allri dýralæknaþjónustu við dýraeigendur, héraðsdýralæknar sinna nú eingöngu opinberum  störfum.

Með reglugerð  nr. 846/2011 var ákveðið að þjónustusvæði í dreifbýli væru 9 talsins. Það voru síðan gerðir þjónustusamningar við 10 dýralækna um að sinna þessum svæðum. Á þessum sömu svæðum voru áður starfandi 11 héraðsdýralæknar, sem auk opinberra starfa sinntu einnig dýralæknaþjónustu. Stöðugildum dýralækna í almennri dýralæknaþjónustu í dreifbýli fyrir breytingu voru um 10,9 talsins og hefur þá verið tekið tillit til opinberra starfa héraðsdýralækna. Eftir breytingu á dýralæknakerfinu þá hafa stöðugildi aukist um 2,3 talsins og eru orðin um 13,2 talsins. Breytinguna má að hluta til rekja til þess dýralæknar með þjónustusamning eru nú í fullu starfi við að sinna þjónustu við dýraeigendur sem áður var sinnt samhliða opinberum störfum héraðsdýralækna. Þeir dýralæknar sem hafa tekið að sér ákveðin þjónustusvæði fá greiðslu fyrir það úr ríkissjóði, þar sem það var metið nauðsynlegt til að tryggja þessum svæðum dýralæknaþjónustu. Dýralæknarnir hafa ýmsum skyldum að gegna í samræmi við ofangreinda reglugerð og samning milli þeirra og Matvælastofnunar.


Það er því til þessara þjónustudýralækna sem bændur á viðkomandi svæðum geta snúið sér vegna þjónustu og ráðgjafar. En öllum bændum er frjálst að kalla til sín aðra starfandi dýralækna. Starfsemi þessara dýralækna er miðuð við dagvinnutíma á virkum dögum. Þurfi dýraeigandi á dýralækni að halda utan dagvinnutíma þá tekur við ákveðið vaktakerfi sem er skipulagt af héraðsdýralæknum MAST og nær til alls landsins, en ekki bara til dreifbýlu svæðanna. Skrá yfir vakthafandi dýralækna má finna á vef MAST.

Við þetta má bæta að Bændasamtök Íslands hafa annast umsýslu á fjármunum sem koma úr ríkissjóði sem ætlað er til að greiða að nokkru leiti aksturskostnað þeirra bænda sem liggja lengst frá aðsetri þjónustudýralæknisins. Þetta er þannig útfært að bóndi sem er í meira en 40 kílómetra fjarlægð frá dýralækni borgar dýralækninum fyrstu 80 kílómetrana, en það sem er umfram það, fær dýralæknirinn greitt frá Bændasamtökunum. Þarna er því verið að koma verulega til móts við þá bændur sem greiða þurfa mestan aksturskostnað vegna vitjunar dýralæknis.  

Það má því segja að gerðar hafa verið mikilvægar mótvægisaðgerðir vegna breytinga á héraðsdýralæknakerfinu til að tryggja dýraeigendum nauðsynlega dýralæknaþjónustu. 

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?