Fara í efni

ESA birtir landskýrslu um Ísland

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) hefur nú birt svokallaða landsskýrslu um Ísland sem stofnunin vann að í samráði við Matvælastofnun, heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga og aðrar hlutaðeigandi stofnanir í landinu.

Í landsskýrslunni er yfirlit yfir þau opinberu eftirlitskerfi á Íslandi sem tryggja eiga öryggi matvæla og fóðurs, dýraheilbrigði og dýravelferð. Í landsskýrslunni er einnig yfirlit um viðbrögð íslenskra yfirvalda við tilmælum um úrbætur sem ESA hefur gefið út í kjölfar 10 eftirlitsheimsókna frá árinu 2010.

Ísland hefur í langflestum tilfellum brugðist við tilmælum ESA um úrbætur á fullnægjandi hátt. ESA mun fylgjast áfram með framvindu mála þar sem ekki hefur verið brugðist við tilmælum eða úrbótum er ekki að fullu lokið af hálfu íslenskra stjórnvalda.

Landsskýrslan byggist á:

  • upplýsingum frá íslenskum stjórnvöldum um skipulag og virkni opinberra eftirlitskerfa. 
  • niðurstöðum úr eftirlitsferðum ESA til Íslands undanfarin ár. Sérstaklega er horft til eftirlitsferðar í desember 2013, þar sem farið var almennt yfir stöðu mála á einstökum sviðum. 

ESA fer reglulega í eftirlitsferðir til Íslands til að ganga úr skugga um að opinbert eftirlit sé í samræmi við hollustuháttalöggjöf Evrópska efnahagssvæðisins. Eftir hverja eftirlitsferð er gefin út skýrsla þar sem bent er á hvar úrbóta er þörf og þess óskað að Ísland leggi fram áætlun um úrbætur þar sem annmarkar hafa fundist. ESA metur áætlanir sem lagðar eru fram og fylgir innleiðingu þeirra eftir, m.a. með sérstakri eftirfylgni eftirlitsferð sem síðast var framkvæmd í desember 2013.

Landsskýrslan inniheldur fjóra kafla:

  • Kafli 1 lýsir heildarskipulagi opinbers eftirlits á Íslandi og stjórnsýslulegri uppbyggingu.
  • Kafli 2 skýrir nánar uppbyggingu einstakra eftirlitskerfa sem ætluð eru til að tryggja öryggi matvæla og fóðurs og dýraheilbrigði.
  • Kafli 3 inniheldur yfirlit yfir eftirlitsferðir ESA til Íslands á tímabilinu frá maí 2010 til janúar 2013 og stöðu þeirra tilmæla sem sérstaklega var farið yfir í tengslum við eftirlitsferðina sem farin var til eftirfylgni í desember 2013.
  • Kafli 4 inniheldur meginniðurstöður eftirlitsskýrslna ESA til Íslands, sem birtar hafa verið vegna eftirlitsferða, frá því í febrúar 2013.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?