Fara í efni

Eftirlit með lönduðum afla sumarið 2013

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Sumarstarfsmenn Matvælastofnunar, sem sinntu eftirliti með aflameðferð við löndun hafa nú lokið störfum. Eftirlitsmenn Matvælastofnunar mældu hitastig afla um 500 báta og voru mælingarnar tæplega 1900. Rúm 90% mælinganna voru gerðar á afla handfærabáta og var 70% aflans þorskur, 20% ufsi og 10% aðrar tegundir.

Niðurstöður eftirlitsins sýna að kæling afla var betri en árið áður. Meðalhiti lækkaði milli ára úr 3,6°C í fyrra niður í 2,7°C í ár en skv. reglugerð nr. 528/2012 skal hitastig afla vera undir 4°C fjórum klukkustundum eftir að aflinn er tekinn um borð. Jafnframt lækkaði meðalhiti afla frá júní til júlí þrátt fyrir hækkandi sjávarhita. 

Afla sem landað var í Stykkishólmi hafði gengið illa að kæla, meðalhitinn var 4°C og aðeins rétt rúmur helmingur var undir 4°C. Hins vegar var meðalhiti lægstur á afla lönduðum á Sauðárkróki eða 1,9°C. Skiptin milli íss og krapa sem kælimiðils var nokkuð jöfn en mjög breytileg eftir landshlutum. Þannig höfðu þeir sem lönduðu á Siglufirði flestir kælt með krapa, eða 86% en aðeins 24% þeirra sem lönduðu í Ólafsvík.

Enn sjást merki um það viðhorf að ekki sé þörf á kælingu afla. Hlutfall þeirra sem lönduðu ókældum fiski fór hæst í 6% og var það á Rifi. Þá kom það fyrir að svokallaður meðafli var ekki kældur.

Þegar á heildina er litið var meðferð afla nokkuð góð. Um borð var aflinn yfirleitt geymdur í lest eða í lokuðu kari á dekki, aðeins í 10% tilfella var afli óvarinn á dekki. Vel var staðið að þrifum og umgengni góð í 90% skoðaðra báta. 

Skoðaðar voru 20 hafnir af u.þ.b. 60 höfnum sem við landið eru og fengu flestar þeirra nokkuð góða einkunn. Yfirleitt var umgengni um löndunarsvæðið góð, löndunarbúnaður hreinn og vatn til þrifa aðgengilegt. Hafnirnar á Arnarstapa, í Grundarfirði, í Dalvík og á Skagaströnd komu sérlega vel út. Nokkuð var um að fugl kæmist í aflann og komu þar hafnirnar í Ólafsvík, Sandgerði, Siglufirði, Stykkishólmi og á Skagaströnd við sögu.

Mesta þörf á úrbótum er við þrif á löndunarkörum. Þrifnaði á löndunarkörfum var almennt ábótavant við eftirlit Matvælastofnunar á höfnum eins og greint var frá í frétt Matvælastofnunar í byrjun sumars. Algengast var að löndunarkör á höfnum, sem merkt eru Umbúðamiðlun, væru óhrein og að þau væru ekki þrifin fyrir notkun. Nánari upplýsingar um niðurstöður eftirlitsins má nálgast hér að neðan.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?