Fara í efni

Eftirlit með dýrahaldi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Með fjölmörgum nýjungum tóku í gildi um áramót ný lög um velferð dýra og einnig ný lög um búfjárhald, þar á meðal fluttust verkefni búfjáreftirlitsmanna til Matvælastofnunar. Búfjáreftirlitsmenn, sem störfuðu hjá sveitarfélögunum, voru um 40 manns en áætluð stöðugildi þeirra voru 10 – 12. Matvælastofnun hefur hins vegar ráðið sex starfsmenn í þeirra stað og því ljóst að strax verður mikil hagræðing í eftirliti á sveitabæjum, fækkun um fjóra til sex starfsmenn, en þetta er gert í samræmi við stefnu stjórnvalda og  fjárheimildir Alþingis. Fjárheimildin felur að mestu í sér að Matvælastofnun er ætlað að afla eigin tekna, þ.e. að innheimta gjald fyrir framkvæmt eftirlit. Fram til þessa hafa sum sveitarfélög  innheimt gjald fyrir búfjáreftirlitið en önnur ekki og því kann mörgum bændum að bregða við að fá reikning frá Matvælastofnun í kjölfar heimsóknar. Stefnt er að því að aðeins einn eftirlitsmaður komi að jafnaði frá stofnuninni  til að sinna öllu eftirliti í hverri heimsókn, misjafnt verður þá hvort eftirlitsmaðurinn er dýralæknir eða búvísindamaður að mennt, allt eftir því hvað til stendur að skoða hverju sinni.

Eftirlit Matvælastofnunar  með dýrahaldi og matvælaframleiðslu á frumframleiðslustað nær yfir eftirfarandi þætti:  Heilnæmi fóðurs, heilbrigði og líðan dýra, hollustuhætti  í matvælaframleiðslu, notkun lyfja, merkingar dýra, fóðurbirgðir og gripafjölda, auk gæðastýringar í sauðfjárrækt. Hagræðingin felur í sér að nýta verður starfskraftana  þar sem þeirra er mest þörfin. Þar til eiginleg áhættuflokkun hefur farið fram verður við ákvörðun um hvað verður skoðað og hvaða staðir verða heimsóttir  litið til þekktrar sögu viðkomandi dýrahalds, stærð búa auk þess sem hluti eftirlitsstaða mun byggjast á slembiúrtaki. Auk eftirlitsþáttanna sem taldir eru upp hér að framan þarf að bregðast við öllum ábendingum um illa meðferð á dýrum en á síðasta ári bárust alls 371 ábending til Matvælastofnunar, þ.a. 215 vegna búfjár og 156 vegna gæludýra.

Það er ljóst að með fækkun starfa í reglubundu eftirliti með dýrahaldi verður Matvælastofnun að treysta meira á almenning. Stofnunin hvetur fólk til að láta vita ef það hefur grun um illa meðferð á dýrum. Mikil aukning ábendinga á síðasta ári bendir til betri meðvitundar almennings og að auðvelt er að koma ábendingum á framfæri, flestir tilkynna í gegnum heimasíðu Matvælastofnunar með því að smella á táknið „Sendu ábendingu“.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?