Fara í efni

Dýralæknar mennta sig í tannlækningum hesta

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í vor gafst íslenskum dýralæknum einstakt tæktfæri til að auka við þekkingu sína í greiningu og meðhöndlun á tannvandamálum og öðrum meinum í munni hesta. Dýralæknadeild Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar (SLU) stóð fyrir námskeiðinu í samvinnu við Dýralækni hrossasjúkdóma hjá Matvælastofnun og var það haldið á Hólum.


Um framhaldsnámskeið var að ræða, með áherslu á nákvæmar skoðanir á tönnum og munnholi auk röntgengreininga.  Farið var yfir möguleika á meðhöndlun algengra vandamála. Beiting fíngerðra verkfæra er forsenda sértækrar meðhöndlunar og kemur í veg fyrir óþarfa eyðingu á heilbrigðum tönnum.


Auk lifandi hesta með og án þekktra vandamála var unnið með hrosshausa sem safnað hafði verið á sláturhúsi. Það var sláandi að sjá hversu alvarlegar tannskemmdir höfðu hrjáð marga þá hesta, sem leiðir hugann að hversu margir hestar eru í raun sendir til slátrunar vegna afleiðinga tannskemmda.

Undirbit jaxla er algengur bitgalli í íslenska hrossastofninum sem með tímanum dregur úr möguleikum hesta til að tyggja eðlilega. Ef ekki er gripið til réttrar meðhöndlunar taka vandamálin að hrannast upp. Los á tönnum, tannholdsbólgur, óeðlilegt tannslit og sár í slímhúð munnsins eru dæmi um sársaukafullar afleiðingar sem margir hestar mega lifa með. Hestar sem bíta í mél fá sambærileg vandamál að viðbættri glerungseyðingu sem með tímanum getur leitt til tannátu. Alvarlegustu tannskemmdirnar reyndust þó brotnar tennur eftir kjaftglennur og skemmdar tennur eftir raspanir.

Ljóst er að vandaðar greiningar og meðhöndlanir á vandamálum í munni eru afar brýnar fyrir velferð hesta. Tennurnar eru hestunum lífsnauðsynleg líffæri, lifandi vefur sem ber að umgangast af virðingu. Tannraspanir eru andstæðan og ættu að heyra sögunni til.

Íslenskir dýralæknar sem tóku þátt í námskeiðinu:


  • Stefán Friðriksson
  • Aðalbjörg Jónsdóttir
  • Mia Hellsten
  • Brigitte Brugger
  • Sunneva Eggertsdóttir
  • Höskuldur Jensson
  • Guðrún Margrét Sigurðardóttir
  • Lísa Bjarnadóttir
  • Vignir Sigurólason
  • Sigríður Björnsdóttir


Kennarar voru Torbjörn Lundströn tannlæknir og sérfræðingur í tönnum hesta, Dr. Ove Wattle yfirmaður sjúkdómsgreininga við hestaspítala SLU, Margareta Uhlhorn sérfræðingur í myndgreiningum á SLU, Christina Larsson röntgentæknir SLU, Ylva Rubin dýralæknir og Lars Lindahl verkfærasmiður.Getum við bætt efni síðunnar?