Fara í efni

Dýralæknar á endurmenntunarnámskeiði um tennur hesta og særindi í munni

Dýraheilbrigðissvið Matvælastofnunar og Dýralæknafélag Íslands stóðu í sameiningu fyrir endurmenntunar- námskeiði um tennur hesta og særindi í munni dagana 1. – 2. maí sl. Mikill áhugi var á námskeiðinu sem var sótt af 30 dýralæknum víðs vegar af landinu.Torbjörn Lundström tannlæknir og sérfræðingur í tönnum hesta, Sofia Tenselius dýralæknir og Dr. Ove Wattle kennari við Dýralæknadeild Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar kenndu á námskeiðinu. Þau hafa haldið fjölda slíkra námskeiða fyrir dýralækna í Svíþjóð, Noregi og víðar.  

Torbjörn hefur á þriðja áratug unnið eingöngu með hesta, bæði á eigin stofu og við Dýralæknadeild Landbúnaðarháskóla Svíþjóðar. Hann hefur með vinnu sinni byggt upp einstakan gagnagrunn og birt fjölda greina um áhrif beislisbúnaðar og tanngalla á heilbrigði munnsins.


Tennur og munnurinn í heild sinni eru viðkvæmt líffærakerfi sem gegnir lífsnauðsynlegu hlutverki í hestum eins og öllum öðrum dýrategundum. Það dýr sem getur ekki étið á ekki marga lífdaga í vændum. Munnurinn er auk þess afar mikilvægur í samskiptum manns og hests. Þau samskipti byggja á næmni munnsins sem er mikilsvert að virða og varðveita.


Því miður er algengt að reiðhestar séu með sár í munni. Ekki þarf að draga í efa að slík sár geta valdið hestum óþægindum og sársauka. Skilningur á byggingu og starfsemi þeirra líffæra sem í hlut eiga er grundvöllur úrbóta. Nauðsynlegt er að átta sig á orsökum sára í munni og skoða vel hvern einstakling sem í hlut á.


Rannsóknir Torbjörn Lundström hafa sýnt að meirihluta sára í munnslímhúð hesta má rekja til rangrar notkunar á beislisbúnaði og notkunar á búnaði sem passar hestinum illa. Það ber að varast að mél og múlar valdi síendurteknum þrýstingi á sama stað á slímhúðinni. Til lengdar dregur slíkur þrýstingur úr blóðflæði til slímhúðarinnar og veldur sárum sem eru lengi að gróa. Of löng mél og hertir múlar eru dæmi um búnað sem ber að varast. Afar mikilvægt er að skipta um mél og múla reglulega, eiga t.d. 2 – 3 sett sem henta hverjum hesti og nota til skiptis. 


Undirbit á jöxlum er afar algengt í íslenskum hestum og getur slíkur tanngalli leitt til þess að fremstu og öftustu jaxlarnir slitna ekki eðlilega. Með tímanum leiðir þetta til þess að hesturinn fer að tyggja nær eingöngu með hliðarhreyfingum. Bitflötur jaxlanna slitnar þá óelilega mikið á sumum stöðum og of lítið á öðrum. Slíkt getur háð hestum í reið auk þess að draga úr endingu tannanna. Þá eru tannskemmdir ekki óalgengar. Orsakir þeirra geta m.a. verið að hesturinn hafi um langt skeið bitið í mélin og eytt glerungnum á fremstu jöxlum. Einnig er hætt við að notkun á munnglennum sem hesturinn bítur í með jöxlunum öðru megin, ásamt röspun tanna, geti valdið sprungum á glerungnum sem síðar leiða til tannskemmda.


Sem fyrr segir er það afar slæmt fyrir tannheilsu hesta ef þeir bíta í mélin. Auk þess að eyða glerungnum getur þessi ávani leitt til þess að bitflöturinn skekkist og losnað getur um fremstu jaxla. Þá er hætt við tannholdssýkingum. Meðhöndlanir á tanngöllum og tannsjúkdómum eru vandasamt verk. Nákvæm greining þarf að liggja fyrir þannig að hægt sé að beita nákvæmri og réttri meðhöndlun. Tannraspanir sem slíkar ættu að heyra sögunni til enda valda þær aðeins ótímabæru sliti tanna. Með öllu er óasættanlegt að nota glennur sem hestar bíta í með jöxlunum við skoðun og meðhöndlun á tönnum hesta. 


Oft þarf lítið til að bæta líðan hesta í munni. Aukin þekking á líffæra- og lífeðlisfræði munns og tanna ásamt nákvæmri skoðun eru þar lykilatriði.


Getum við bætt efni síðunnar?