Fara í efni

Dagsektir vegna aðbúnaðar nautgripa og sauðfjár

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hefur lagt dagsektir á bónda á Suðurlandi vegna aðbúnaðar nautgripa og sauðfjár á bænum. Um endurtekið brot er að ræða án þess að kröfur stofnunarinnar um úrbætur hafi verið virtar.

Matvælastofnun krafðist úrbóta á búinu í lok síðasta árs vegna útigangs nautgripa og aðbúnaðar í fjárhúsum og fjósi. Við eftirlit í janúar og mars hafði úrbótum ekki verið sinnt nema að hluta.

Samkvæmt reglugerð nr. 940/2015 um beitingu og hámark dagsekta í opinberu eftirliti með velferð dýra taka dagsektir gildi frá og með þeim degi sem þær eru ákvarðaðar og fram að þeim degi sem skyldu er fullnægt að mati Matvælastofnunar. Samkvæmt sömu reglugerð falla útistandandi dagsektir niður ef umráðamaður dýra hefur bætt á fullnægjandi hátt úr aðstæðum og aðbúnaði dýra, að mati Matvælastofnunar, innan fimm virkra daga frá ákvörðun stofnunarinnar um dagsektir. Svo var ekki og leggjast dagsektir að upphæð 15.000 kr. á umráðamann dýranna. 


Getum við bætt efni síðunnar?