Fara í efni

Dagsektir MAST vegna brota bónda á dýravelferð staðfestar af ráðuneyti

Matvælastofnun tilkynnti bónda að ákveðið hefði verið að leggja á hann dagsektir þar sem lög um dýravelferð og reglugerð um velferð nautgripa væru brotin með alvarlegum hætti í búrekstri hans. Sneru brotin m.a. að hreinleika dýra og legusvæði sem væri ábótavant. Bóndinn benti þá á að mjólkurframleiðslu myndi fljótlega verða hætt á bænum og mótmælti álagningu dagsekta af þeim sökum. Matvælastofnun benti hins vegar á að enn væru gripir í fjósi sem byggju við óviðunandi aðstæður.

Innheimtu dagsekta var síðan hætt þar sem í ljós hefði komið við eftirlit að dagsektirnar höfðu borið árangur; allar mjólkurkýr farnar og betri umgjörð komin á ungneyti.

Bóndinn krafðist þess að dagsektirnar yrðu lækkaðar eða felldar niður. MAST hefði ekki gætt meðalhófs og brotið gegn rannsóknar- og jafnræðisreglu stjórnsýslulaga. Því hafnaði Matvælastofnun. Bóndinn kærði þá synjunina til matvælaráðuneytis.

Í úrskurði ráðuneytis segir að ljóst sé að 29.gr. laga nr. 55/2013 um velferð dýra hafi verið brotin í búskap bóndans en hún fjallar um aðbúnað dýra auk þess sem nánar er kveðið á um aðbúnað nautgripa í reglugerð nr. 1065/2014. Um ítrekaðar athugasemdir Matvælastofnunar hafi verið að ræða.

Ráðuneytið staðfesti í úrskurðinum að ákvörðun Matvælastofnunar um dagsektir hefði verið lögmæt og við framkvæmd hennar hefði verið farið að ákvæðum stjórnsýslulaga nr. 37/1993.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?