Fara í efni

Campy-On-Ice: baráttan gegn kampýlóbakter

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Opið málþing um Campy-on-Ice verkefnið og baráttuna gegn kampýlóbakter verður haldið fimmtudaginn 27. maí kl. 9-13 að Vínlandsleið 12 í Reykjavík. Á málþinginu verður fjallað um þær aðgerðir sem gripið var til í kjölfar kampýlóbakterfaraldursins í fólki árið 1999 og þann árangur sem náðist með þessum aðgerðum.

Þegar sala á ferskum kjúklingi var heimiluð á Íslandi árið 1996 jókst neysla kjúklingakjöts verulega.  Þremur árum seinna varð sprenging í fjölda kampýlóbakter-tilfella í fólki. 

Gripið var til víðtækra aðgerða til að sporna við þessari þróun.  Mikilvægasta aðgerðin var og er enn, að frysta alla kjúklinga sem eru kampýlóbaktersmitaðir fyrir slátrun. Sýni eru tekin úr öllum kjúklingahópum fáum dögum fyrir slátrun. Ef þeir reynast smitaðir eru kjúklingarnir frystir en frysting fækkar fjölda baktería þannig að minni líkur eru á að fólk smitist við neyslu.

Campy-On-Ice“ rannsóknin sem hófst fyrir um 10 árum var viðamikið samstarfsverkefni Kanada, Bandaríkjanna og Íslands,  en Matvælastofnun, Matís, Keldur, Landlæknisembættið og Sýkladeild Landspítalans voru fulltrúar landsins í þessari rannsókn. Rannsóknirnar voru margþættar og niðurstöðurnar eftir því fjölbreyttar. Á málþinginu verður farið yfir helstu niðurstöður, sem nýttust í smitvörnum og bættu árangur við að verjast smiti í fugla og fólk.

Í kjölfar „Campy-On-Ice“ verkefnisins varð til annað verkefni sem nefnt hefur verið „Fly netting Project“, sem hófst 2008. Það felst í að klæða loftræstistrompa alifuglahúsa með flugnanetum, en flugur eru alþekktir smitberar. Á málþinginu verður einnig farið yfir þessa rannsókn og niðurstöður kynntar, sem þegar hafa vakið athygli erlendis.

Málþinginu lýkur með hádegisveislu í boði kjúklingaframleiðenda til heiðurs Ruff Lowman fyrir sitt ómetanlega framlag til verkefnisins. Málþingið fer fram á íslensku og ensku og verður dagskrá sem hér segir:

  • 09:00 – 09:10    Setning
  • 09:10 – 09:25    Saga kampýlóbakter á Íslandi í 10 ár - Sigurborg Daðadóttir
  • 09:25 – 09:40    Kampýlóbakter sýkingar og faraldsfræði í mönnum 
  •                        - Hjördís Harðardóttir og Guðrún Sigmundsdóttir
  • 09:40 – 10:00    „Campy-On-Ice“ hagnýt not fyrir alifuglaframleiðendur - Jarle Reiersen
  • 10:00 – 10:15    Kaffihlé
  • 10:15 – 12:00    „Campy-On-Ice“ Kanada - „Fly netting“ - Ruff Lowman
  • 12:00 – 13:00    Veisla til heiðurs Ruff Lowman

Málþingið verður haldið í nýjum húsakynnum Matís að Vínlandsleið 12, 113 Reykjavík á 3. hæð fimmtudaginn 27. maí og hefst kl. 9:00.


Getum við bætt efni síðunnar?