Fara í efni

Bannað að fóðra búfé með eldhúsúrgangi

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun vill vekja athygli á að bannað er að gefa búfé dýraafurðir og eldhúsúrgang. Fóðrun dýra með dýraafurðum eða eldhúsúrgangi getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér enda ein helsta smitleið margra alvarlegra smitsjúkdóma í dýr. 

Samkvæmt fóðurlögum og reglugerð um aukaafurðir dýra er bannað að fóðra búfé, að loðdýrum undanskildum, með kjöti og öðrum dýraafurðum öðrum en mjólk og eggjum í ákveðnum tilfellum. Reglurnar banna jafnframt notkun hvers kyns eldhúsúrgangs, bæði frá heimilum og veitingastöðum, sem fóður fyrir búfé. Þetta á bæði við um hráar eða eldaðar matarleifar. Ástæða þessa banns er að kjöt og dýraafurðir eru ein helsta smitleið alvarlegra smitsjúkdóma í dýr, svo sem gin- og klaufaveiki, klassískrar svínapestar, afrískrar svínapestar, Newcastle-veiki og fuglaflensu. Eldun dugar ekki til að drepa öll þau smitefni sem matarleifar geta innihaldið.

Gin- og klaufaveikifaraldurinn í Bretlandi árið 2001 er mjög gott dæmi um þá áhættu sem tekin er þegar svínum er gefinn eldhúsúrgangur en uppruni hans var rakinn til svínabús sem fóðraði með hitameðhöndluðum eldhúsúrgangi frá veitingastöðum. Þessi faraldur varð til þess að a.m.k. 6,5 milljónir dýra (nautgripir, sauðfé og svín) voru aflífuð og ársframleiðsla á búfjárafurðum á landsvísu var 20% minni en áætlað var. Fjárhagslegt tjón landbúnaðar- og matvælageirans var um þrír milljarðar punda og ferðamálageirinn tapaði öðru eins. Heildarkostnaður fyrir þjóðina er talinn hafa verið um átta milljarðar punda. Ætla má að afleiðingar af slíkum faraldri hér á landi yrðu mjög alvarlegar, jafnvel óbætanlegar fyrir íslenska dýrastofna.

Gin- og klaufaveiki hefur aldrei borist til Íslands en hins vegar hafa tveir aðrir alvarlegir smitsjúkdómar borist í svín hér á landi. Annars vegar svínapest (e. classical swine fever) sem kom upp árið 1942 og hins vegar blöðruþot (e. vesicular exanthema) árið 1955. Í báðum tilvikum var hægt að rekja smitið til eldhúsúrgangs.

Rétt er að minna á alvarlegan faraldur afrískrar svínapestar sem nú geisar í Evrópu og víðar og nýjustu stöðuupplýsingar frá Alþjóða dýraheilbrigðisstofnuninni

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?