Fara í efni

Athugasemdir við skýrslu FÁH um innflutning gæludýra

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í september 2017 gaf Félag ábyrgra hundaeigenda út skýrslu um stöðu innflutningsmála gæludýra á Íslandi. Í skýrslunni er farið yfir hvernig innflutningi hunda og katta til Íslands er háttað og forsendur fyrir breytingum á núgildandi löggjöf. Skýrsluhöfundar leituðu ekki álits Matvælastofnunar sem er sú ríkisstofnun sem fer með eftirlit með innflutningi dýra. Í skýrslunni er nokkuð um rangfærslur varðandi innflutningsreglur og verkferla og telur stofnunin rétt að koma leiðréttingum á framfæri.

Að minnsta kosti þrívegis í skýrslunni er gefið í skyn að verkferlar í tengslum við innflutning gæludýra brjóti í bága við lög og/eða reglugerðir. Matvælastofnun lítur slíkar staðhæfingar mjög alvarlegum augum.

1. kafli. Núverandi fyrirkomulag á innflutningi gæludýra

Í kafla 1.2 á síðu 9 er fjallað um aðstöðu á Keflavíkurflugvelli til móttöku hunda og katta. Þar segir að þegar hundar og kettir koma til landsins með flugi séu dýrin færð í einangrunarherbergi í kjallara flugstöðvarinnar og að þetta sama einangrunarherbergi sé notað fyrir dýr í millilendingu. Það er síðan gagnrýnt þar sem dýr sem eru að fara í einangrun kæmust þar með í tæri við dýr í millilendingu og eigendur þeirra. Skýrsluhöfundar halda því fram að hér sé um að ræða brot á lögum nr. 54/1990 um innflutning dýra.

Þetta er hins vegar ekki rétt. Hundar og kettir sem hafa fengið heimild til innflutnings og skulu fara í einangrun eru við komuna til landsins, fluttir í sóttvarnaraðstöðu Matvælastofnunar. Hér er um að ræða sérútbúna aðstöðu í fraktmiðstöð IGS þar sem innflutningseftirlit af hálfu dýralæknis á vegum Matvælastofnunar fer fram. Sóttvarnaraðstaða er skilgreind í reglugerð 935/2004 um innflutning gæludýra og hundasæðis sem aðstaða fyrir dýr á innflutningsstað og kveður reglugerðin einnig á um aðbúnað og verklag í tengslum við innflutning. Einungis Matvælastofnun og þeir flugþjónustustarfsmenn sem flytja dýrin frá flugvélum og inn í aðstöðuna (auk tollsins), hafa aðgang að rýminu. Að lokinni skoðun dýralæknis eru dýrin sótt af starfsmanni einangrunarstöðvarinnar og flutt rakleiðis í stöðina.

Í suðurbyggingu flugstöðvarinnar er hins vegar að finna sérútbúið herbergi fyrir hunda og ketti sem millilenda í Keflavík. Enginn samgangur er á milli þessa herbergis og sóttvarnaraðstöðunnar í fraktmiðstöðinni. Dýr sem eru í millilendingu eru því ekki hýst í sóttvarnaraðstöðu fyrir dýr sem heimilað hefur verið að flytja inn.

Varðandi verkferla einangrunarstöðvarinnar kemur fram í skýrslunni að saursýni og blóðsýni séu tekin til rannsókna á annars vegar sníkjudýrum og hins vegar leptospirosis. Rétt er að saursýni eru tekin til athugunar á sníkjudýrum en blóðsýnin eru rannsökuð m.t.t. hundainflúensu en ekki leptospirosis enda skulu hundar bólusettir gegn leptospirosis áður en þeir eru fluttir til Íslands. Meginástæðan fyrir mótefnamælingu vegna hundainflúensu er hættan á því að hestainflúensuveira geti borist með hundum að utan í íslensk hross en íslensk hross eru sérstaklega viðkvæm fyrir nýjum smitsjúkdómum.

Þá er það gagnrýnt að einungis sé tekið við dýrum í einangrunarstöðina í 2-3 daga í hverjum mánuði (réttara sagt í hverju holli) og að það setji innflytjendum miklar skorður. Í 13. grein reglugerðar nr. 432/2003 um einangrunarstöðvar og sóttkvíar fyrir gæludýr er kveðið á um móttöku og útskrift dýra með þessum hætti. Þetta fyrirkomulag er sk. „allt-inn-allt-út“ kerfi sem byggir á því að öll dýr sem eru í einangrun séu á sama stað í ferlinu sem gerir það að verkum að viðbrögð við hugsanlegu smiti geta verið mjög markviss. Einangrunarstöðin er þrifin og stendur auð í a.m.k. 2 daga (þó alla jafna 5 daga) á milli hópa.

Í síðustu málsgrein kafla 1.2 segir að „engar frekari upplýsingar“ liggi fyrir um verkferla innan einangrunarstöðvarinnar. Slíkar verklagsreglur eru þó til staðar og byggja þær á fyrrgreindri reglugerð, bæði hvað varðar umgengni um stöðina og umönnun dýra. Einnig liggur fyrir samningur stöðvarinnar við þjónustudýralækni.

Í fyrstu málsgrein kafla 1.3 um áhættumat kemur fram að embætti yfirdýralæknis hafi skipað starfshóp til að framkvæma áhættumat vegna innflutnings gæludýra. Því skal haldið til haga að verkefnið var unnið að beiðni landbúnaðarráðuneytisins.

Í síðustu málsgrein kafla 1.3 segir að ótal mismunandi varnaraðgerðir vegna innflutnings dýra séu í gildi í löndum víðsvegar um heiminn í dag. Hér skal bent á, að þegar áhættumatið var unnið (árin 2001-2002) þá var fyrirkomulagið í Evrópulöndum og víðar mjóg ólíkt því sem nú er, t.d. var krafa um 6 mánaða einangrun í Bretlandi. Hér er því ólíku saman að jafna.

Í kafla 1.4 er fjallað um löggjöf um innflutning gæludyra. Þar sem fjallað er um reglugerð 935/2004  á síðu 12 segir að ekki sé neinn rökstuðningur fyrir því að dýr skulu dvelja í einangrun. Þó segir réttilega á síðu 11 að 9. grein laga um innflutning dýra kveði á um að einangra skuli öll innflutt dýr svo lengi sem þörf er á. Ljóst er að reglugerð sem sett er með stoð í lögunum þarf að vera innan ramma þeirra laga.

Í síðustu málsgrein kafla 1.4 á s. 12 segir að ekki hafi verið hægt að nálgast upplýsingar um hvort einangrunarstöðin í Höfnum uppfylli skilyrði reglugerðar nr. 432/2003. Starfsfólki Matvælastofnunar er ekki kunnugt um að FÁH hafi óskað eftir slíkum upplýsingum, hvorki hjá stofnuninni né hjá einangrunarstöðinni sjálfri. Þó skal hér upplýst að einangrunarstöðin sem er undir eftirliti Matvælastofnunar fékk rekstrarleyfi landbúnaðarráðuneytisins á þeim forsendum að hún stæðist skilyrði reglugerðarinnar.

Kafli 1.5 fjallar um nokkur tilfelli þar sem gæludýr hafa verið flutt ólöglega til landsins. Hér eru nefnd dæmi um tvö tilvik þar sem kettir höfðu komið ásamt eigendum sínum til landsins í húsbílum með Norrænu annars vegar og hins vegar tvö tilvik þar sem köttur og hundur sluppu fyrir slysni úr flugvélum í millilendingu. Kettirnir sem komu með Norrænu voru aflífaðir en hundurinn og kötturinn sem sluppu út í millilendingu voru afhentir eigendum sínum að lokinni skoðun og sýnatökum. Hér eru borin saman ólík dæmi. Annars vegar var um að ræða ólöglegan innflutning þar sem eigendum/innflytjendum mátti vera fullljóst að slíkur innflutningur væri óheimill. Hins vegar var um að ræða dýr sem voru sem fyrr segir stödd í flugvél í millilendingu (annars vegar á Reykjavíkurflugvelli og hins vegar á Keflavíkurflugvelli) og höfðu eigendur fengið heimild Matvælastofnunar til þess. Óhöpp urðu til þess að þau sluppu út og var það álit Matvælastofnunar að teknu tilliti til aðstæðna að eigendur mættu fara með dýrin af landi brott aftur.

Í fjórðu málsgrein kafla 1.5 segir að það virðist vera í verkahring MAST að ákveða hvaða dýr fá að lifa og hvaða dýr ekki. Í 2. grein laga nr. 54/1990 um innflutning dýra segir að dýrum sem flutt eru inn án heimildar skuli tafarlaust lógað. Þetta ákvæði átti við í tilfelli kattanna í húsbílunum og því átti stofnunin ekki annarra kosta völ en að lóga köttunum. Hér var um að ræða ólöglegan innflutning dýra sem var alfarið á ábyrgð eigendanna.

2. kafli. Tækni- og vísindalegar forsendur fyrir endurskoðun innflutningslaga

Í 3. málsgrein kafla 2.1 á síðu 14 segir að skilyrði vegna hundaæðis sé eitt af strangari og flóknari skilyrðunum fyrir innflutningi gæludýra til Íslands. Bólusetning gegn hundaæði og í sumum tilfellum einnig mótefnamæling er þó innflutningskrafa víðast hvar í heiminum. Til að mynda gengur evrópski gæludýrapassinn fyrst og fremst út á varnir gegn hundaæði. Vert er að taka fram að hundaæði er súna, þ.e. smit getur borist úr dýrum í fólk.

Gagnvart ESB löndum (og Noregi og Sviss) eru skilgreind tiltekin þriðju ríki og hundar og kettir sem koma þaðan skulu bólusettir gegn hundaæði, svo skal mæla mótefni (í fyrsta lagi mánuði síðar) og 3 mánuðum síðar má flytja dýrið inn. Þessi skilyrði eru því sambærileg þeim sem gilda fyrir hundaæði vegna innflutnings til Íslands. Nokkur lönd hafa verið skilgreind hundaæðislaus og dýr sem koma þaðan til Íslands þurfa hvorki bólusetningu né mótefnamælingu vegna hundaæði.

Í 4. málsgrein á síðu 14 segir að einangrun geri ekkert gagn til sóttvarna og í framhaldi af því segir að einu sýkingarnar sem komið hafa upp hafi verið iðraormasmit og að venjulega dugi ein tafla til meðhöndlunar. Svo segir að núverandi skilyrði séu þau að dýrið skuli meðhöndlað gegn iðraormum 24-120 tímum fyrir innflutning (rétt er að meðhöndla skal dýrin innan við 10 daga fyrir innflutning) og að það ætti að duga til að fyrirbyggja smit. En að jafnvel mætti gera kröfu um aðra meðhöndlun stuttu eftir komuna til landsins.

Einangrun gegnir margþættu hlutverki varðandi smitvarnir. Bólusetningar og sýnatökur miðast við að fyrirbyggja þá sjúkdóma sem líkur er að borist geti með innfluttum dýrum til landsins. Ómögulegt er að fyrirbyggja alla hugsanlega smitsjúkdóma sem gætu borist til landsins með þessum hætti og frá öllum þeim löndum og heimsálfum sem innfluttir hundar og kettir koma og þar hefur einangrunin því mjög mikilvægu hlutverki að gegna. Meðgöngutími smitsjúkdóma (tíminn sem líður frá því dýrið smitast og þar til einkenni koma fram) er afar mismunandi en stór hluti veiru- og bakteríusjúkdóma er með meðgöngutíma sem er skemmri en mánuður. Því eru líkur á því að einkenni nýlegrar sýkingar kæmu fram á meðan dýrin eru í einangrun. Þá væri hægt að bregðast við og gera viðeigandi ráðstafanir til að hefta útbreiðslu smitsins. Varðandi hundaæði þá getur það tekið 6 mánuði (allt upp í 12) fyrir einkenni að koma fram. Þó svo að öll dýr séu bólusett gegn sjúkdómnum þá er ekki útilokað að dýrin geti borið smit. Með 120 daga biðtíma frá bólusetningu og 28 daga einangrun þá er sá tími liðinn sem líklegast er að einkenni komi fram. Sömu rök eru að baki fjögurra mánaða biðtíma eftir hundaæðisbólusetningu vegna innflutnings hunda og katta til Evrópusambandslanda frá skilgreindum þriðju ríkjum.

Eins og kemur réttilega fram í skýrslunni þá eru iðraormasmit, eða réttara sagt sníkjudýr, helstu sjúkdómarnir sem greinst hafa í einangrunarstöðinni í Höfnum. Þó skal tekið fram að sníkjudýr greinast nær undantekningarlaust í hluta dýranna í hverju einasta innflutningsholli. Og þrátt fyrir það að dýrin hafi öll samkvæmt vottorði verið meðhöndluð bæði gegn út- og innvortis sníkjudýrum á innan við 10 dögum fyrir innflutning. Dæmi eru um að sníkjudýr sem ekki hafa fundist áður á Íslandi hafi verið greind í einangrun. Andstætt því sem kemur fram í skýrslunni dugar ekki alltaf „ein tafla“ til meðhöndlunar sníkjudýrasýkingar, í sumum tilfellum þarf nokkurra daga meðhöndlun og áframhaldandi sýnatökur til að fylgja meðhöndlun eftir. Hafa ber í huga að sum sníkjudýr í hundum og köttum geta borist í fólk og slíkar sýkingar er oft erfitt að uppræta.

Í kafla 2.2 er fjallað um innflutningsskilyrði hunda og katta til Evrópuríkja, Ástralíu, Nýja-Sjálands og Hawaii. Einhvers misskilnings virðist gæta í skýrslunni um það fyrirkomulag sem er við lýði í Evrópu. Í Evrópusambandinu er í gildi löggjöf um flutning hunda og katta á milli landa innan ESB og frá þriðju ríkjum til ESB landa með það að meginmarkmiði að koma í veg fyrir útbreiðslu hundaæðis. Evrópureglugerð 576/2013 kveður á um skilyrði innflutnings og Evrópureglugerð 577/2011 kveður á um gæludýravottorð, heilbrigðisvottorð og landalista. Ríki utan Evrópusambandsins eru skilgreind m.t.t. þess hvort hundar og kettir skulu eingöngu bólusettir gegn hundaæði vegna innflutnings til ESB eða hvort mótefnamæling skuli einnig fara fram (og þá a.m.k. 1 mánuði eftir bólusetningu og 3 mánuðum fyrir innflutning). Það svokallaða pet travel scheme (PETS) sem vísað er í í skýrslunni, er það fyrirkomulag sem var í gildi í Bretlandi áður en Evrópureglurnar tóku gildi.

3. kafli. Dýravelferðarþættir sem forsendur fyrir endurskoðun innflutningslaga

Í þriðja kafla er vikið að dýravelferð. Í fjórðu málsgrein á s. 21 segir að verklag í einangrunarstöðinni sé með þeim hætti að dýrin njóti ekki athygli eða örvunar og séu ein í 16 tíma á dag og að það sé brot á reglugerð 80/2016 um velferð gæludýra.

Þessi yfirlýsing er úr lausi lofti gripin. Samkvæmt upplýsingum frá eiganda einangrunarstöðvarinnar er hverju dýri sinnt nokkrum sinnum á dag þegar það er fóðrað og því hleypt út. Auk þess leggja starfsmenn sig fram við að huga að dýrunum, klappa þeim og tala við þau hvenær sem færi gefst svo að þeim líði sem best meðan á dvölinni stendur. Eins og þegar hefur fram komið var ekki haft samband við eiganda eða aðra starfsmenn stöðvarinnar vegna skýrslu FÁH.

Í kafla 3.3.-3.4 á s. 23 er fjallað um áhrif einangrunar á félagslegar dýrategundir og vísað í rannsóknir á áhrifum einangrunar á félagslegan þroska og tengslamyndun hjá hundum og einnig köttum. Allar rannsóknirnar sem vísað er í miðuðust við dýr undir 15 vikna aldri. Þetta getur því ekki átt við það fyrirkomulag sem í gildi er á Íslandi þar sem lágmarksaldur hunda og katta við komuna til landsins er 5 mánuðir. Þá er það gagnrýnt að innflytjendur þurfi að bíða svo lengi eftir að fá dýrin til sín og þurfi að fá seljandann ytra til að passa dýrið þar til það nær lágmarksaldri. Hér eru skýrsluhöfundar í nokkurri mótsögn við sjálfa sig þar sem þeir annars vegar segja einangrun sem slíka vera slæma fyrir ung dýr og hins vegar sé slæmt fyrir innflytjendur að fá dýrin ekki til sín fyrr en í fyrsta lagi sex mánaða gömul.

Í 2. málsgrein kafla 3.5 á s. 25 er fjallað um hugsanleg slys og veikindi sem komið geta upp í einangrun. Vísað er í tilfelli papillion tíkurinnar Amy. Eins og fyrr hefur komið fram var ekki leitað eftir áliti eða umsögn Matvælastofnunar um þetta mál og getur stofnunin ekki fjallað um það án heimildar eiganda hundsins.

Á síðu 26 segir að engin dýralæknaþjónusta sé í boði á meðan einangrun stendur sem er brot á reglugerð 432/2003. Þessi staðhæfing er röng og er stöðin með þjónustusamning við sjálfstætt starfandi dýralækni eins og kveðið er á um í ofangreindri reglugerð. Sá dýralæknir kemur í einangrunarstöðina að minnsta kosti tvisvar á hverju einangrunartímabili auk þess sem hann er ávallt til taks ef upp koma veikindi eða slys.

Erfitt er að taka afstöðu til yfirlýsinga sem ekki byggja á neinum dæmum eins og þeirri sem fram kemur í 3. málsgrein á s. 26.

4. kafli. Mannréttindaþættir sem forsendur fyrir endurskoðun innflutningslaga.
5. kafli. Niðurstöður, samantekt og tillögur.

Varðandi kostnað vegna innflutnings (kafli 4.3) er rangt að 25% af verði dýrs og flutningskostnaði skuli greitt beint til MAST. Hér er væntanlega átt við aðflutningsgjöld. Vísað er til tollstjóra vegna nánari skýringa á þeim.

Í 2. málsgrein kafla 5.1 á s. 32 segir að mikil hætta sé á slysum og ævilöngum andlegum áverkum fyrir dýrin. Á árunum 2003-2016 (ársskýrsla Matvælastofnunar 2017) dvöldu tæplega 3000 dýr í einangrunarstöðinni. Í skýrslunni er fjallað um meint slys á einu dýri en engin gögn né heimildir voru lagðar fram um meinta andlega áverka innfluttra dýra.

Að lokum segir að áhættumatið sem núverandi reglur byggja á hafi verið unnið út frá röngum forsendum og jafnframt að einangrun sé tímaskekkja og ómannúðleg, svo og að núverandi innflutningslög séu byggð á sandi.

Núgildandi lög um innflutning dýra eiga sér mjög langan aðdraganda, innflutningsbann fyrir hross, nautgripi og sauðfé var fyrst sett árið 1882. Undanþágur voru veittar frá því á fyrri hluta 20. aldar og með slíkum innflutningi bárust m.a. sauðfjársjúkdómar sem ekki enn hefur verið unnt að uppræta. Það er því ljóst að lög um innflutning og þær hömlur sem þar er kveðið á um voru sett af brýnni nauðsyn. Þó er það rétt að mikil þróun hefur orðið í dýralækningum undafarna áratugi og miklar breytingar á löggjöf varðandi innflutning dýra víðast hvar í heiminum.

Skýrsluhöfundar benda á að horfa beri til evrópska kerfisins. Nú er komin töluverð reynsla á samræmda löggjöf Evrópusambandsins um flutning gæludýra á milli landa ESB og til ESB frá þriðju ríkjum. Smygl með hvolpa frá tilteknum þriðju ríkjum er nokkuð algengt og í skýrslu tollayfirvalda í Svíþjóð frá árinu 2013 kom fram að um 2000 hvolpum væri smyglað árlega til Svíþjóðar frá hvolpaverksmiðjum í Austur Evrópu. Verð á slíkum hvolpum er lægra en gengur og gerist í Vestur Evrópu og með þessum hætti er slíkum verksmiðjum haldið gangandi. Þetta vandamál er einnig vel þekkt t.d. í Bretlandi og í Noregi auk þess sem innflutningur sk. götuhunda er áhyggjuefni. Árið 2012 gerði norska dýraheilbrigðisstofnunin (Norsk veterinærinstitutt) rannsókn á innfluttum götuhundum og niðurstaðan var sú að stór hluti þeirra hunda var fluttur inn á fölsuðum vottorðum þ.e. mótefni gegn hundaæði mældist ekki í 45 av 80 hundum. Auk þess eru dæmi um að ný sníkjudýr hafi borist til Noregs með slíkum hundum. Árið 2016 í kjölfar þess að götuhundur frá Rúmeníu greindist með alvarlegt hjartaormasmit í Noregi lýsti norska Matvælastofnunin því yfir að verið væri að skoða möguleikana á að herða reglur um innflutning hunda og katta til Noregs.

Lokaorð

Matvælastofnun hefur mikilvægum hlutverkum að gegna varðandi innflutning dýra til Íslands. Stofnunin skal framfylgja lögum og reglum löggjafans þar að lútandi, þ.e. sjá til þess að öll skilyrði séu uppfyllt af innflytjendum og jafnframt þeim sem annast einangrun bæði hvað varðar dýrasjúkdómavarnir og dýravelferð. Eðli málsins samkvæmt er mikilvæg þekking til staðar hjá stofnuninni um innflutningsmál og ekki síst vegna námskeiða um málaflokkinn hjá Evrópusambandinu, samskipta við innflytjendur, dýralækna og systurstofnanir erlendis.

Ljóst er að miklar breytingar hafa orðið varðandi flutning og ferðalög gæludýra sérstaklega innan Evrópu og á milli Evrópu og Bandaríkjanna undanfarna 1-2 áratugi. Víðtækar breytingar hafa verið innleiddar m.a. með upptöku gæludýrapassans í Evrópusambandslöndum og hafa þær átt sinn þátt í því að eigendur ferðast mun oftar með sín dýr á milli landa. Þó hefur þetta nýja kerfi einnig verið misnotað og falsanir gagna og smygl með dýr sem ekki uppfylla kröfur er vel þekkt í okkar nágrannalöndum.

Matvælastofnun telur gagnlegt að hagsmunasamtök eins og FÁH fjalli um innflutningsmál en þykir óheppilegt að ekki hafi verið leitað álits hjá stofnuninni við gerð skýrslunnar. Þannig hefði mátt fyrirbyggja misskilning, rangindi og dylgjur um að reglum sé ekki framfylgt.

Matvælastofnun tekur þó undir tillögu FÁH um að full ástæða sé til að endurskoða reglur um innflutning hunda og katta til Íslands og að skoða beri allar hliðar málaflokksins í því samhengi.

Uppfærð frétt 15.11.17 kl: 09.08


Getum við bætt efni síðunnar?