Fara í efni

Ársuppgjör gæðastýringargreiðslu 2017 afgreitt

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í morgun gekk Búnaðarstofa Matvælastofnunar frá ársuppgjöri gæðastýringargreiðslu vegna ársins 2017. Alls voru greiddar um 235 milljónir króna til um 1.258 framleiðenda sem eru þátttakendur í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu og uppfylltu öll skilyrði. Meðalgreiðsla til framleiðanda var um 190 þúsund krónur. 228 framleiðendur fengu kröfu um endurgreiðslu miðað við ársáætlun ársins 2017 eða alls að upphæð um 23 milljónir króna, eða að meðaltali um 100 þúsund krónur á framleiðanda.  
 
Í ársuppgjöri er greitt út á framleiðslu á lambakjöti ársins 2017, en ársáætlun tók mið af ársframleiðslu 2016.
 

Þá er gerð endurkrafa á þá framleiðendur sem framleiddu minna árið 2017, en ársáætlun 2017 gerði ráð fyrir, eða stóðust ekki skilyrði um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu á síðasta ári. Skilyrði eru sett um fullnægjandi skil á afurðaskýrsluhald, skil á haustskýrslu og engin alvarleg frávik hafi komið upp í eftirliti Matvælastofnunar með dýravelferð, umhverfi o.fl. þáttum skv. reglugerð um gæðastýrða sauðfjárframleiðslu.

Í gær var ársáætlun um beingreiðslur til sauðfjárbænda birt á Bændatorginu og gengið frá fyrstu beingreiðslum ársins til bænda fyrir janúar og febrúar mánuð, alls um 337 milljónir króna (mánaðargreiðsla um 169 milljónir króna). 

Búnaðarstofa vinnur nú að ársáætlun fyrir gæðastýringargreiðslu þessa árs eftir að handhafabreytingar vegna þessa árs hafa verið afgreiddar og nýir þátttakendur í gæðastýrðri sauðfjárframleiðslu hafa verið samþykktir í kerfið. Framleiðendur mega gera ráð fyrir að ársáætlun birtist á Bændatorginu seinni partinn á mánudag og verður í framhaldinu gengið frá fyrstu greiðslu ársins í samræmi við áætlunina.

Getum við bætt efni síðunnar?