Fara í efni

Ársáætlun um stuðningsgreiðslur til sauðfjárbænda 2019

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Bráðabirgðaársáætlanir búnaðarstofu Matvælastofnunar um heildarframlög til sauðfjárbænda voru birtar á Bændatorginu þann 16. janúar. Áætlunin birtir áætlaða heildarupphæð stuðningsgreiðslna á árinu 2019 og mánaðargreiðlsu í hverjum styrkjaflokki. Tvöföld greiðsla í janúar byggir á bráðabirgðaársáætlun miðað við framleiðslutölur fyrra árs á þeim tíma sem áætlunin er gerð. Áætlun verður endurskoðuð fyrir 1. mars og tekur þá mið af uppfærðum tölum um framleiðslu fyrra árs og hugsanlegum breytingum á forsendum ársáætlunarinnar. Rétt að taka fram að ársáætlunin fyrir ullarnýtingu nú byggir á þeim staðfestum tölum frá Ístex sem voru komnar til Matvælastofnunar á þeim tíma sem áætlun var gerð. Það er ljóst að nokkuð vantar upp á ullarinnlegg bænda þar sem Ístex hafði ekki staðfest innlegg sem skráð hefur verið á síðustu vikum. Það verður leiðrétt við útreikning á endurskoðaðri ársáætlun fyrir greiðslu í marsmánuði.

Sama dag og bráðabirgðaársáætlun var birt þá vorur stuðningsgreiðslur fyrir janúar og febrúar greiddar til sauðfjárbænda, alls um 671 milljónir króna. Um var að ræða beingreiðslur út á greiðslumark, gæðastýringargreiðslur, beingreiðslur út á ull og svæðisbundinn stuðning. Býlisstuðningur er greiddur í dag, 18. janúar. Beingreiðslur voru greiddar til 1.256 handhafa, beingreiðslur í ull til 1.165 handhafa, svæðisbundinn stuðningur til 362 handhafa og gæðastýringargreiðsla til 1.440 handhafa. Um 70-170 handhafar (mismunandi fjöldi eftir styrkjaflokkum) fengu ekki greiðslur (settir á bið) vegna þess að þeir uppfylltu ekki öll skilyrði fyrir stuðningsgreiðslum skv. 3. gr. reglugerðar um stuðning við sauðfjárrækt.

Matvælastofnun heldur eftir 7% af framlögum vegna gæðastýringar og ullarnýtingar og 2% vegna beingreiðslna, svæðisbundins stuðnings og býlisstuðnings við útreikning á ársáætlun. Greiðsla þess hluta sem haldið er eftir er gerð upp í ársuppgjöri í febrúar á næsta ári þegar heildarframleiðsla ársins 2019 liggur fyrir.

Athugasemdir við áætlunina skulu berast búnaðarstofu Matvælastofnunar innan 20 daga frá dagsetningu þeirra. Sérstakt rafrænt eyðublað verður aðgengilegt fyrir framleiðendur á Bændatorginu frá og með mánudeginum 21. janúar sem fylla skal út til að koma á framfæri athugasemdum við bráðabirgðaársáætlunina. Matvælastofnun svarar öllum athugasemdum eigi síðar en 15. apríl nk. 


Getum við bætt efni síðunnar?