Fara í efni

Þarf heimilisfang að koma fram á merkingum matvæla?

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Merkja skal heimilisfang ábyrgðaraðila á umbúðir matvæla. Deilt hefur verið um hvort merking veffangs í stað heimilisfangs uppfylli ákvæði reglugerðar um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda. Matvælastofnun álítur að fullt póstfang eigi að koma fram á umbúðum matvæla en gerir ekki athugasemd að svo stöddu við að veffang (heimasíða) matvælafyrirtækis/ábyrgðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu komi í stað póstfangs að tilteknum skilyrðum uppfylltum.

Samkvæmt reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (ESB) nr. 1169/2011 um miðlun upplýsinga um matvæli til neytenda (hér eftir merkingarreglugerð), skulu forpökkuð matvæli bera upplýsingar um nafn og heimilisfang þess einstaklings/fyrirtækis (hér eftir matvælafyrirtækis), sem markaðssetur matvæli undir sínu nafni og ber ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma á vörunni (gr. 8.1 og 9.1, h-liður). Hafi viðkomandi matvælafyrirtæki ekki aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu, ber að merkja vöruna sömu upplýsingum um innflytjandann á markað svæðisins. Innflytjandinn skal jafnframt hafa aðsetur á Evrópska efnahagssvæðinu og bera ábyrgð á þeim upplýsingum sem fram koma á vörunni.

Sem útgangspunkt og meginreglu, túlkar Matvælastofnun gr. 9.1., h-lið í ofangreindri merkingarreglugerð á þann hátt, að krafa sé gerð um merkingu á heimilisfangi (address) sem póstfangi þess matvælafyrirtækisins sem ber ábyrgð á merkingum vörunnar. Viðbótarupplýsingar um veffang og símanúmer fyrirtækis eru heimilar.

Allflest ríki innan Evrópusambandsins gera kröfu um fullt póstfang ábyrgðaraðila matvælafyrirtækis (þ.e. götuheiti, húsnúmer, póstnúmer og borg/bær/hérað). Í fáeinum ríkjum á norðlægri slóðum þar sem aðgangur almennings að veraldarvefnum (interneti) er mjög almennur, hefur talist fullnægjandi að gefa upp veffang matvælafyrirtækis í stað póstfangs, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Er þá gerð krafa um að á viðkomandi heimasíðu megi nálgast á aðgengilegan hátt, nánari upplýsingar um aðsetur fyrirtækisins þannig að neytendur og eftirlitsaðilar geti með auðveldum hætti sett sig í samband við fyrirtækið.

Samkvæmt eldri merkingarreglum hér á landi var heimilt að gefa upp einungis heimilisfang sem bæ, borg eða hérað. Matvælastofnun álítur að það dugi ekki lengur til, heldur þurfi að gefa upp heimilisfang sem fullt póstfang (þ.e. götuheiti, húsnúmer, póstnúmer og borg/bær/hérað). Stofnunin mun þó beina því til eftirlitsaðila að gefa fyrirtækjum allt að tveggja ára svigrúm til að bæta þessar upplýsingar.

Málhefðir þróast og með tímanum taka ýmiss orð breytingum og öðlast jafnvel nýja merkingu. Ekki er útilokað að hugtakið „address“ hafi hafi fengið á sig nútímalegri og víðtækari merkingu (með aðsetur á veraldarvefnum).  Á meðan ekki liggur fyrir nánari skilgreining á hugtakinu frá Evrópusambandinu mun Matvælastofnun ekki gera athugasemdir við að veffang matvælafyrirtækis/ábyrgðaraðila á Evrópska efnahagssvæðinu, komi í stað póstfangs að ákveðnum skilyrðum uppfylltum. Mikilvægast er að neytendur og eftirlitsaðilar geti á auðveldan hátt, sett sig í samband við fyrirtækið og gerir stofnunin því kröfur um að viðkomandi heimasíða sem vísað er til, sé aðgengileg, reglulega uppfærð og á henni megi á auðveldan hátt finna upplýsingar um fullt póstfang fyrirtækisins.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?