Fara í efni

Alþjóðleg vinnuráðstefna um ofnæmissjúkdóma í hrossum haldin á hólum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Alþjóðleg vinnuráðstefna rannsóknahópa sem vinna að rannsóknum á ofnæmissjúkdómum í hrossum verður haldin á Hólum, dagana 17. – 21. júní nk. Um 30 vísindamenn sem vinna að rannsóknum á ónæmisfræði hrossa munu sækja Skagafjörð heim af þessu tilefni.


Á ráðstefnunni verður fjallað um nýjustu rannsóknir sem lúta að því að skýra og skilgreina ónæmiskerfi hesta og ofnæmissjúkdóma því tengdu. Stór hluti ráðstefnunnar er helgaður sumarexemi í hrossum.


Sumarexem er ofnæmissjúkdómur í hrossum sem orsakast af biti mýflugnategundar sem lifir ekki hér á landi. Sjúkdómurinn er þekktur í flestum hrossakynjum erlendis og er sérstaklega algengur í íslenskum hrossum sem flutt hafa verið úr landi. Mikil áhersla hefur verið lögð á rannsóknir á sjúkdómnum hér á landi í von um að hægt verði að draga úr áhrifum hans á útflutt hross enda er það mikið hagsmunamál fyrir íslenska hrossarækt og  áríðandi með tilliti til dýraverndar. Ráðstefnur sem þessar eru haldnar með reglulegu millibili og eru mjög mikilvægar til að miðla upplýsingum milli rannsóknahópa og efla samstarf. Aðalstyrktaraðili er bandaríski sjóðurinn Havemeyer Foundation.


Í undirbúningsnefnd ráðstefnunnar eru:


Sigríður Björnsdóttir (Landbúnaðarstofnun)
Vincent Gerber (Vetsuisse Faculty, University of Bern, Switzerland)
Eliane Marti (Vetsuisse Faculty, University of Bern, Switzerland)
Sigurbjörg Þorsteinsdóttir (Tilraunastöð Háskóla Íslands)


Getum við bætt efni síðunnar?