Fara í efni

Áhrif verkfalls á starfsemi Matvælastofnunar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun er ein af þeim stofnunum sem boðaðar verkfallsaðgerðir BHM ná til. BHM starfsmenn hafa boðað verkfall eftir hádegi í dag og síðan hefst ótímabundið verkfall dýralækna, líffræðinga og matvæla- og næringarfræðinga hjá Matvælastofnun þann 20. apríl hafi ekki samist fyrir þann tíma. Verkfall mun hafa víðtæk áhrif og mun eftirfarandi starfsemi að mestu stöðvast:

  • Eftirlit í frumframleiðslu og með matvælafyrirtækjum sem framleiða búfjárafurðir (s.s. kjöt- og mjólkurframleiðsla)
  • Eftirlit með heilbrigði, aðbúnaði og velferð dýra, þ.m.t. leyfi til flutninga yfir varnarlínur
  • Eftirlit með áburði og fóðri
  • Allt eftirlit í sláturhúsum og þar með kjötframleiðsla
  • Innflutningur á lifandi dýrum og dýraafurðum (kjöt, ostar o.fl.)
  • Útflutningur á lifandi dýrum
  • Útflutningur á dýraafurðum til þriðju ríkja (s.s. kjöt, aðrar búfjárafurðir og fiskafurðir til tiltekinna ríkja)
  • Eftirlit með sjúkdómum í fiskeldi
  • Eftirlit með plöntuheilbrigði
  • Þjónusta og fræðsla við eftirlitsaðila (s.s. starfsmenn heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga), fyrirtæki og almenning varðandi merkingar, fæðubótarefni, matvælasnertiefni, aukefni, erfðabreytt matvæli, varnarefni, aðskotaefni o.s.frv.

Verkfallið nær til meira en helmings starfsmanna Matvælastofnunar. Héraðsdýralæknar, eftirlitsdýralæknar, sérgreinadýralæknar, dýraeftirlitsmenn, matvælafræðingar og líffræðingar verða í verkfalli og því verður reglubundnu eftirliti með þeirri starfsemi sem tilgreind er að ofan ekki sinnt. Einungis forstjóri Matvælastofnunar og yfirdýralæknir eru undanþegnir verkfalli hjá framangreindum starfsstéttum. 

Eftirlit með fyrirtækjum í sjávarútvegi fellur að mestu utan verkfallsaðgerða. Ekkert eftirlit verður framkvæmt í sláturhúsum sem hefur í för með sér að slátrun getur ekki farið fram. Starfsemi inn- og útflutningsskrifstofu Matvælastofnunar stöðvast einnig að mestu leyti og mun það hafa í för með sér að viðskipti með lifandi dýr og dýraafurðir við þriðju ríki (Rússland, Kína, Bandaríkin o.fl.) verða fyrir verulegum áhrifum.

Í lögum um kjarasamninga opinberra starfsmanna er kveðið á um skipan nefndar deiluaðila sem skuli fjalla um undanþágur til að afstýra neyðarástandi. Fjármálaráðuneytið tilnefnir aðila til setu í undanþágunefndum, ásamt þeim sem tilnefndir eru af hálfu stéttarfélaga BHM. Matvælastofnun, fyrirtæki og aðrir hagsmunaaðilar geta óskað eftir undanþágum í samræmi við framangreint.


Getum við bætt efni síðunnar?