Fara í efni

Afnám geldinga grísa án deyfingar

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eitt af viðfangsefnum Matvælastofnunar á sviði dýravelferðar er afnám geldinga grísa án deyfingar eða svæfingar. Unnið hefur verið markvisst að því að finna farsæla lausn á málinu í samvinnu við atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið og Svínaræktarfélag Íslands.

Matvælastofnun beitti sér fyrir hertum reglum um geldingu grísa við umfjöllun um frumvarp til nýrra dýravelferðarlaga og eftir gildistöku laganna er ljóst að geldingar grísa án deyfingar eða svæfingar eru ekki leyfilegar. Stofnunin hefur unnið að því að tryggja framfylgni laganna og hefur talið vænlegra til árangurs að vinna að lausn mála í samstarfi við þá aðila sem í hlut eiga, áður en gripið er til þvingana, ekki síst þegar allir virðast sammála um þau meginmarkmið sem stefnt er að. Stofnunin fagnar því yfirlýsingu Svínaræktarfélags Íslands þann 28. maí sl. um afnám geldinga án deyfingar.

Síðastliðið haust sóttu svínabændur um undanþágu frá kröfu um deyfingu við geldingar grísa til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins. Á meðan beiðnin var til meðferðar var Matvælastofnun beðin um að grípa ekki til aðgerða. Ráðuneytið hafnaði síðan beiðni svínabænda og barst Matvælastofnun bréf þess efnis 18. mars.

Í kjölfarið óskuðu svínabændur eftir nánari upplýsingum um geldingu grísa og af því tilefni hélt Matvælastofnun opinn fræðslufund í byrjun maí um bólusetningu grísa í stað geldingar, sem svínabændum, sláturleyfishöfum, neytendasamtökum og dýraverndarsamtökum var boðið að sækja. Framkvæmd bólusetningar í stað geldingar felur í sér umfangsmiklar breytingar á verklagi og voru svínabændur upplýstir um að Matvælastofnun myndi ekki beita þvingunarúrræðum út árið svo lengi sem að svínabændur gætu sýnt fram á að verið væri að innleiða og setja í framkvæmd nýtt verklag sem uppfyllir ákvæði nýrra dýravelferðarlaga. 

Þessu var fylgt eftir með bréfi sem sent var til svínabænda þar sem þeim er gert að sýna fram á, fyrir 10. júní 2014, hvernig þeir hyggist standa að innleiðingu nýs verklags við geldingar grísa, sem uppfyllir lagakröfur. Jafnframt verður þessu fylgt eftir með eftirlitsheimsókn og að því loknu verður lagt mat á framgang mála og þörf á aðgerðum. Markmiðið er að allir svínabændur uppfylli þessar kröfur sem fyrst í samræmi við þá niðurstöðu sem nú er fengin. 

Ný lög um velferð dýra tóku gildi hérlendis án sérstaks aðlögunartíma, en frá því að beiðni svínabænda um undanþágu var hafnað í mars s.l. hefur verið gerð krafa um að svínabændur sýni fram á breytt verklag á landsvísu sem uppfyllir ákvæði laganna. Þess má geta að Evrópusambandið hefur lýst því yfir að svínabændum verði gefinn frestur til 2018 til að gelda grísi án deyfingar eða svæfingar. Reglur í Danmörku taka mið af þessu, en í Svíþjóð hefur svínabændum verið veittur styttri frestur eða til 2016.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?