Afli skal vera undir 4°C þegar honum er landað!
Í júní fóru fram hitastigsmælingar á afla 240 báta. Mælingarnar voru alls 548 og fóru fram víðs vegar um landið. Um 90% bátanna voru á strandveiðum og tæp 88% mælinga voru á alfa strandveiðibáta.
Meðalhitastig afla var 3,2°C, og voru 70% innan við 4°C.
Skipting milli íss og krapa sem kælimiðils var nokkuð jöfn en 7% bátanna komu með ókældan fisk að landi. Meðalhiti þess afla sem kældur var með krapa var 2,2°C, þess sem kældur var með ís 3,5°C og meðalhiti á ókældum fiski var 8,2°C.
Hæsti meðalhiti mældist hjá bátum sem lönduðu í Stykkishólmi 4,1°C og 3,9°C í Sandgerði.
Hver er þróunin?
Skoðaðir voru sérstaklega þeir bátar sem eftirlitsmenn hittu fyrir oftar en einu sinni í mánuðinum.Þá kemur í ljós að aðeins helmingur þeirra hafði náði að kæla aflann undir 4°C þegar fyrri mælingin var gerð en 83% þeirra komu að landi með vel kældan afla í lok mánaðarins.
Í upphafi mánaðarins hafði 64% þeirra sem ekki náðu að kæla aflann nægjanlega við fyrri mælingu náð góðum tökum á kælingunni í lok mánaðarins. Þetta má sjá á mynd 1.
Mynd 1. Hér má sjá hvernig til tókst hjá þeim sem bættu kælinguna. Rauðir hringir sýna hitastigið við fyrstu mælingu, í byrjun júní. Bláir þríhyrningarnir sýna hitastigið í seinni mælingu, undir lok mánaðarins. Rauð lína er við 4°C.
Aftur á móti hafði hitastigið hækkað hjá þeim sem ekki náðu að bæta kælinguna. Þannig hafði hitastigið hjá 36% þeirra sem mælst höfðu um og yfir 4°C í byrjun júní, hækkað þegar mælt var í lok mánaðarins. Kannski endurspeglar þetta hækkun sjávarhita. Sjá mynd 2.
Mynd 2. Hitastigið sem hafði verið um og yfir 4°C, rauðir hringir, hafði hækkað við síðari mælinguna, svartir þríhyrningar. Rauð lína er við 4°C.
Nú gildir að sofna ekki á verðinum. Þótt svo sól sé farin að lækka á lofti á sjórinn enn eftir að hitna.
„Ísun gerir gæðamuninn“