Fara í efni

Afhending sýklalyfja til sauðfjárbænda

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun og Bændasamtökin hafa í samvinnu þróað rafrænar skráningar í búfjárhaldi, nú nýlega varðandi sjúkdóma- og lyfjaskráningar í sauðfé. Tengingar hafa verið virkjaðar milli gagnagrunnanna Heilsu og LAMBs til að einfalda skráningar og losna við skráningar á pappír. Nú í vor var opnað fyrir gerð rafrænna samninga milli dýralækna og bænda vegna afhendingar dýralækna á sýklalyfjum til bænda, án þess að dýralæknar hefji meðhöndlun sjálfir. Með þessum breytingum verður allt utanumhald auðveldara og pappírsvinnan hverfur auk þess sem dýralæknir og bóndi hafa betri yfirsýn yfir afhendingar og notkun sýklalyfja í sauðfé.

Skráningarkerfin Heilsa og LAMB

Heilsa er skráningarkerfi Matvælastofnunar sem dýralæknar skrá í sjúkdómsgreiningar og lyfjameðhöndlanir í búfé. Vorið 2013 var komið á tengingu Heilsu við LAMB, nýtt skýrsluhaldskerfi fyrir sauðfjárbændur, með tengingunni gátu dýralæknar skráð vitjanir á sauðfé. Í október 2013 var opnað fyrir „heilsukortshluta“ í LAMBi og þar með gátu bændur í fyrsta skipti skráð rafrænt lyfjagjafir sem þeir framkvæma sjálfir. Skráning lyfjanotkunar bænda er framkvæmd þannig að þeir velja lyf úr lyfjaskáp sínum og skrá lyfið í viðkomandi gripi. „Heilsukortshlutinn“ í LAMBi gerir það kleift að rafvæða lyfjaskráningar bænda, nákvæmar skráningar eru skilyrði fyrir undanþágum yfirdýralæknis sem heimilar dýralæknum að afhenda sýklalyf án þess að þeir hefji meðhöndlun sjálfir. Annað skilyrði fyrir undanþágu er að viðkomandi dýralæknir og bóndi geri með sér sérstakan samning, sem einnig verður þá rafrænn.

Samningar  vegna afhendingar sýklalyfja 

Í reglugerð nr. 539/2000 um heimildir dýralækna til að ávísa lyfjum segir í 17.gr. að dýralækir skuli sjálfur hefja meðferð með sýklalyfjum, að undangenginni sjúkdómsgreiningu, þegar um búfé er að ræða. Samkvæmt sömu grein er yfirdýralækni heimilt að veita undanþágu frá þessu ákvæði ef landfræðilegir staðhættir, veðurfar eða aðrar ytri aðstæður hindra dýralækni til að hefja meðferð sjálfur. Í nokkur ár hefur yfirdýralæknir veitt  slíkar undanþágur til dýralækna vegna afhendingar sýklalyfja til sauðfjárbænda, einkum ætlað til notkunar í sauðburði. Dýralækni bar að hafa undirritaðan samning við hvern þann bónda sem hann afhenti sýklalyf, í þeim samningunum voru tilgreind ákveðin skilyrði. Dýralæknir skyldi halda skrá um afhendingar þessara lyfja til bænda auk þess að skrá öll afhent lyf í lyfjaskáp viðkomandi bús í Heilsu. Bændum bar að halda skriflegt bókhald um alla notkun á sýklalyfjum og í lok sauðburðar áttu bændur að taka saman skráningar og senda til dýralæknisins. Dýralæknirinn skyldi taka saman skýrslu um ávísun lyfja skv. undanþágunni og senda yfirdýralækni að loknum sauðburði. Þessa miklu pappírsvinnu er nú hægt að losna við með því að skrá rafrænt í Heilsu og LAMB. 

Nýtt fyrirkomulag með rafrænum skráningum

Hið nýja fyrirkomulag felur í sér að bóndi þarf að óska eftir samningi við dýralækni í gegnum LAMB og viðkomandi dýralæknir verður að samþykkja samninginn í Heilsu til að virkja hann, þannig vinna dýralæknar í Heilsu og bændur í LAMBi. Á umsóknareyðublaði í LAMBi birtist listi yfir þá dýralækna sem fengið hafa undanþágu yfirdýralæknis og aðeins þeir geta gert samninga við bændur. Dýralæknar og bændur hafa ávallt aðgang að sínum samningum í Heilsu og LAMBi. Í stað gildistíma til eins árs, eins og verið hefur hingað til, verða nú engin tímamörk sett, hvorki fyrir undanþágur né fyrir rafræna samninga. Þeir falla hins vegar úr gildi uppfylli dýralæknar ekki skilyrði sem sett eru til undanþágunnar eða ef bændur uppfylla ekki skilyrði sem sett eru í samningi milli dýralæknis og bónda. Dýralæknir skráir afhent sýklalyf í lyfjaskáp viðkomandi sauðfjárbús í Heilsu.  Ef það fyrirferst af einhverjum ástæðum þá hefur bóndi heimild til að skrá sýklalyfið sjálfur í LAMBi í nafni þess dýralæknis sem hann hefur gert samning við. Áfram verður að sjálfsögðu það skilyrði að bóndi skuli aðeins nota sýklalyfin í samráði við dýralækninn, en nýtt skilyrði verður að bóndinn er skyldaður til að skrá lyfjagjafirnar í LAMB. Þar sem allar skráningar verða rafrænar verður ekki þörf fyrir samantekt á sérstökum skýrslum í lok sauðburðar. Áfram er möguleiki fyrir þá bændur, sem það kjósa, að gera samning við dýralækni á pappírsformi samkvæmt sýnishorni sem Matvælastofnun birtir á heimasíðu sinni. Skráningar verða þá á pappír og skilað til dýralæknis í lok sauðburðar eins og rakið er hér að ofan. Vonast er til að þetta nýja fyrirkomulag verði bæði bændum og dýralæknum til hægðarauka.


Getum við bætt efni síðunnar?