Fara í efni

Ábyrg notkun sýklalyfja við slefsýki í lömbum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Þekkt er hér á landi að sýklalyf séu gefin nýfæddum lömbum (lambatöflur) til að fyrirbyggja slefsýki, en sýkingin er af völdum E.coli smits. Notkun sýklalyfja í íslenskum landbúnaði er þó lítil og með því lægsta í Evrópu undanfarin ár, samkvæmt skýrslum Lyfjastofnunar Evrópu (EMA). Takmörkuð vitneskja er um útbreiðslu sýklalyfjaþols í bakteríum í íslensku búfé, því fram til þessa hafa skimanir eingöngu farið fram í svínum og alifuglum.

Í aðdraganda sauðburðar hefur Matvælastofnun gefið út leiðbeiningar um ábyrga notkun á sýklalyfjum við slefsýki í lömbum og meðhöndlun sjúkdómsins, með sérstaka áherslu á aðgerðir til að fyrirbyggja að smit berist í nýfædd lömb. Þó sýklalyfjanotkun sé lítil í dýrum hérlendis er nauðsynlegt að endurskoða vinnubrögð í tengslum við notkun sýklalyfja, sér í lagi er varðar sýklalyf til að nota sem fyrirbyggjandi meðhöndlun. Takmarka þarf notkun sýklalyfja eins og kostur er, hvort heldur sýklalyfjanæmi baktería sé gott í viðkomandi búgrein eða hvort óvissa ríkir, því öll notkun á sýklalyfjum veldur sýklalyfjaþoli um síðir.

Nauðsynlegt er að draga verulega úr reglubundinni notkun "lambataflna" sem notaðar eru í þeim tilgangi að fyrirbyggja slefsýki, því sýklalyf ætti fyrst og fremst að nota til lækninga, ekki sem fyrirbyggjandi aðgerð nema í undantekninga tilvikum og þegar önnur úrræði hafa ekki dugað. Öll notkun felur í sér hættu á sýklalyfjaþoli og ofnotkun eða röng notkun á sýklalyfjum eykur líkur á myndun þess. Árangur næst aðeins í sameiginlegu átaki dýralækna og bænda.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?