Fara í efni

Ábyrg kaup á líflömbum

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Matvælastofnun hvetur til arfgerðagreininga með tilliti til næmis gegn riðusmiti og að bændur nýti þá þekkingu  í sinni ræktun. Mikilvægt er að líflömb sem flutt eru milli bæja eða svæða til kynbóta og/eða sem nýr fjárstofn á svæðum þar sem skorið hefur verið niður vegna riðu séu arfgerðagreind. Verndandi arfgerðir gegn riðu hafa nú fundist á Íslandi og mikið í húfi að nýta þær í baráttunni gegn riðuveiki í öllu ræktunarstarfi sauðfjár, hvort heldur sem er við kaup á lömbum eða notkunar sæðinga.

Verndandi arfgerðin ARR hefur raunar ekki fundist á líflambasölusvæðum enn sem komið er, en arfgerðin AHQ finnst þar í einhverjum mæli  og er flokkuð sem „lítið næm arfgerð“.  Hér á landi er hlutlausa arfgerðin ARQ algengust en áhættuarfgerðin VRQ er því miður einnig nokkuð algeng. Arfgerðin T137, sem hefur sýnt sig að vera verndandi arfgerð í tilteknum fjárstofni á Ítalíu, hefur fundist í íslensku fé og því er vænlegt að rækta fé með þá arfgerð. 

Í gildi er reglugerðarákvæði þar sem segir: "Þar sem fram hefur farið niðurskurður vegna riðu skal þó einungis heimilt að flytja líflömb sem ekki hafa VRQ arfgerðina á búið." Samkvæmt ákvæðinu er bannað að flytja lömb með VRQ áhættuarfgerðina inn á bú þar sem skorið hefur verið niður vegna riðu. Ekki er ábyrgt að kaupa fé með VRQ arfgerðina á aðra bæi. 

Ítarefni

Flutningar og sjúkdómavarnir 


Getum við bætt efni síðunnar?