Fara í efni

Góðgerðasamtök sem taka á móti matvælum

Góðgerðarsamtök sem taka reglulega við matvælum og endurúthluta áfram til neytenda geta fallið undir starfsleyfisskylda starfsemi og þurft starfsleyfi frá heilbrigðiseftirliti sveitarfélaga. Ef slík starfsemi á sér stað sjaldan þá telst hún undir smáræðismörkum og er ekki starfsleyfiskyld skv. lögum um matvæli [1]. Rekstraraðili er ávallt ábyrgur fyrir öryggi þeirra matvæla sem eru gefin. Hann verður að tryggja að fólk veikist ekki af matnum. Matvælin mega ekki innihalda hættuleg efni og/eða sjúkdómsvaldandi gerla, veirur eða sníkjudýr eða vera hættuleg að öðru leyti. Nota skal umbúðir og ílát sem ætluð eru til notkunar fyrir matvæli [2]. Þó svo að starfsemi sé ekki starfsleyfisskyld getur hún sætt eftirliti.

Dæmi um starfsemi þar sem matvælum er endurúthlutað til neytenda:

  • Samtök sem miðla forpökkuðum matvælum í neytendaumbúðum til neytenda
  • Samtök sem miðla óforpökkuðum matvælum til neytenda t.d. ávöxtum og grænmeti
  • Samtök sem bjóða upp á máltíðir

Öll meðhöndlun matvælanna í eldhúsinu skal taka mið af góðum starfsháttum og skal þeim lýst í innra eftirliti (matvælaöryggiskerfi) staðarins. Það fer eftir umfangi og tegund starfsemi hvað þætti innra eftirlit þarf að taka á. Fjallað er um helstu þætti innra eftirlits hér fyrir neðan. Upplýsingar um innra eftirlit og sýnishorn af innra eftirlit má finna á á heimasíðu Matvælastofnunar.

Móttökueftirlit

Við móttökueftirlit skal meta öryggi og gæði matvælanna m.a. með því að:

  • Mæla hitastig á kæli- og frystivörum
  • Skoða hvort umbúðir séu órofnar þar sem það á við
  • Skoða merkingar, lágmarksupplýsingar og geymsluþol
  • Framkvæma skynmat (lykt, bragð, lit og áferð), þar sem við á

Ef eftirlit við móttöku sýnir að matvæli standist ekki ofangreindar kröfur, skal metið hvort hægt sé að nýta matvælin á annan hátt en lagt var upp með eða að þeim skuli fargað.

Fylgjast skal með hitastigi matvæla í geymslu og við meðhöndlun þeirra. Ef upp koma frávik skal a.m.k skrá þau og bregðast við. Viðbrögð skulu vera skráð.

Eftirfarandi viðmið gilda:

  • Kælar eiga að vera við 0-4°C
  • Frystar eiga að vera við -18°C
  • Matvælum sem haldið er heitum skulu vera yfir 60°C

Séu matvæli kæld eftir eldun skal tryggja hraða kælingu þannig að kæling úr 60°C í 4°C taki innan við 4 klst. Sjá nánar leiðbeiningar um „Kælingu matvæla eftir eldun“.

Þrifaáætlun

Hafa skal þrifaáætlun fyrir húsnæði og búnað. Tilgreina á dagleg, vikuleg og mánaðarleg þrif.

Í verklagi um þrif þarf eftirfarandi að koma fram:

  • Hvað eigi að þrífa
  • Hversu oft eigi að þrífa
  • Hvenær eigi að þrífa
  • Hvernig eigi að þrífa (aðferð við þrif og efni sem á að nota)
  • Skráning á þrifum er æskileg

Rekjanleiki

Tryggja þarf rekjanleika matvæla þannig að hægt sé að tilgreina frá hvaða matvælafyrirtæki matvælin komu. Tilgangurinn er að geta stöðvað dreifingu matvæla, taka þau af markaði og innkalla ef upp kemur grunur um hættu.

Fyrir matvæli sem ekki eru fullmerkt í neytendaumbúðum, skal gæta þess við móttöku og við geymslu séu eftirfarandi upplýsingar á ytri umbúðum matvæla:

  • Vöruheiti
  • Geymsluþol (á vörum sem skylt er að merkja með geymsluþoli)
  • Geymsluskilyrði fyrir kæli- og frystivörur
  • Ábyrgðaraðili (sá sem framleiðir eða dreifir vörunni)
  • Auðkennismerki þar sem við á (matvæli úr dýraríkinu)

Aðrar upplýsingar mega vera á fylgiskjölum, t.d. listi yfir innihaldsefni.

Upplýsingagjöf

Til staðar skal vera innihaldslýsing fyrir matvæli sem ekki eru í fullmerktum neytendaumbúðum svo hægt sé að upplýsa neytanda um innihaldsefni þ.m.t. ofnæmis- og óþolsvalda óski hann eftir því. Þessar upplýsingar má veita munnlega eða skriflega. Þar sem boðið er upp á óinnpökkuð matvæli skal hafa upplýsingar til staðar á áberandi stað sem segir hvernig sé hægt að nálgast upplýsingar um innihaldsefni eins og ofnæmis- og óþolsvalda.

Sjá nánar leiðbeiningar um Miðlun upplýsinga um ofnæmis- og óþolsvalda í óforpökkuðum matvælum.

Ítarefni

Vakin er athygli á grunnkröfum sem varða matargjafir í kafla 5.

Breyting var gerð á reglugerð 852/2004, viðauka II. V kafla a bætt við sem fjallar um endurúthlutun matvæla. Breytingin er sett var fram í reglugerð (EB) 2021/382 sem var innleidd hérlendis með reglugerð 1368/2021.

[1] Lög um matvæli nr 93/1995

[2] Reglugerð 580/2012 . Leiðbeiningar um reglugerð 580/2012

Uppfært 21.03.2024
Getum við bætt efni síðunnar?