• Email
  • Prenta

Innflutningur og sala

Áður en innflutningur eða sala fóðurtegundar hefst skal óska eftir skráningu fyrirtækisins og fóðursins á sérstökum eyðublöðum í Þjónustugátt Mast. Sækja þarf um hverja fóðurtegund á sérstöku eyðublaði.

Með umsóknareyðublaði fyrir skráningu nýs fóðurs þarf að fylgja eftirtalin gögn, á íslensku, öðru norrænu máli eða ensku:

  • Upplýsingar um uppruna fóðursins og framleiðanda ásamt samþykkisnúmeri (approval number) fyrirtækisins innan EES.
  • Upplýsingar um hráefnainnihald í röð eftir fallandi þunga hráefna ásamt notkunarleiðbeiningum.
  • Innihaldi fóðrið forblöndur eða viss aukefni þá þarf að gefa upp nöfn og magn þeirra í fóðrinu.
  • Innihaldi fóðrið dýraafurðir og komi frá landi innan EES þarf að fylgja því yfirlýsing framleiðanda um meðhöndlun, hitameðhöndlun eða önnur meðhöndlun, til að eyða og/eða koma í veg fyrir örveruvöxt.
  • Efnagreining á fóðrinu.
  • Merkja á saman gögnin (vörunúmer og nafn á fylgiblaði og innihaldslýsingu) sem send eru til skráningar, endurnýjunar- eða viðbótarskráningar.

Við innflutning á fóðri þarf að senda Matvælastofnun tilkynningu í Þjónustugátt stofnunarinnar, ásamt afriti af vörureikningi.

Innihaldi fóðrið dýraafurðir og komi frá landi utan EES þarf að tilkynna það í gegnum "Traces" og varan fer í gegnum landamærastöð. Jafnframt þarf að fylgja tilkynningunni opinbert heilbrigðisvottorði sem ESB viðurkennir. Gögnin þurfa að berast Matvælastofnun um leið og sendingarnúmer liggur fyrir.

Öllu fóðri (öðru en hreinu fóðurefni) sem ætlað er fyrir dýr til manneldis, þarf að fylgja innihaldslýsing og notkunarleiðbeiningar á íslensku. Merkja skal fóðrið skv. reglugerð nr.
744/2011 um notkun og markaðssetningu fóðurs.

Merkja þarf saman öll fylgigögn fóðursins og gildir það sama um skráningu á gæludýrafóðri. Við viðbótar- eða endurskráningu þarf að gefa upp skráð fóðurnúmer og fóðurheiti skv.skráningu Matvælastofnunar auk þess sem ný fylgigögn eiga að vera merkt með nafni og vörunúmeri.


Athugið að fylgigögnin sem send eru til skráningar og geymslu hjá Matvælastofnun þurfa að vera vel læsileg.