Fara í efni

Listería

Hvað er listería? 

Sex tegundir af listeríu eru þekktar og er Listeria monocytogenes sú tegund sem er sýkjandi, hinar tegundirnar valda yfirleitt ekki matarsjúkdómum en þó eru til undantekningar á því. Ólíkt flestum öðrum matarsýkjandi bakteríum þá er Listería gram jákvæð.

Hvar finnst listería?

Listería er mjög útbreidd í náttúrunni og finnst í jarðvegi, plöntum, skólpi og  þörmum bæði manna og dýra. Vegna gífurlegrar útbreiðslu bakteríunnar þá er erfitt að koma í veg fyrir mengun af hennar völdum í unnum matvörum. Dýr geta smitast af fóðri og frá dýrunum getur bakterían breiðst meira út í umhverfið. Dýr sem smituð eru af Listeríu eru oft á tíðum einkennalausir smitberar. L. monocytogenes finnst oft í hráum matvælum en hún getur einnig fundist í elduðum mat ef um krossmengun er að ræða eftir hitameðhöndlunina.  Þannig að bakterían getur fundist í ýmsum tegundum af matvælum eins og  til dæmis reyktum og gröfnum fiski, hrámjólk, kjúkling, kjöthakki, kjötáleggi og grænmeti.

Vaxtarskilyrði og umhverfi

Listería er mjög þolin baktería og getur fjölgað sér á mjög breiðu sýrustigsbili frá 4,1 upp í 9,6.  L. monocytogenes getur vaxið í loftfirrðu og loftríku umhverfi, þannig að lofttæmdar umbúðir geta ekki komið í veg fyrir fjölgun bakteríunnar og í sumum tilfellum getur hún fjölgað sér í loftskiptum umbúðum.  Kjörhitastig bakteríunnar er 30 - 37°C en hún getur fjölgað sér á hitastigsbilinu 1°C - 45°C. Einnig getur hún fjölgað sér við allt að 10% saltstyrk og lifað af allt að 30% saltstyrk.  

Listeriosis og einkenni

Listeria monocytogenes getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Alvarlegri einkenni eru heilahimnubólga í ungbörnum, blóðeitrun og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi. Áhættuhópar eru aldraðir,  barnshafandi konur, ófædd og nýfædd börn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi. Hópsýkingar af völdum L.monocytogenes eru mjög sjaldgæfar, oftast er um að ræða einstaklingssýkingar.

Almennar ráðleggingar

  • Sjóða/hita hráar fisk- og kjötvörur vel (kjarni >70°C)
  • Skola vel hrátt grænmeti fyrir neyslu.
  • Halda soðnum matvælum frá hráum matvælum til að hindra krossmengun. Þvoið alltaf skurðarbretti og önnur áhöld þegar skipt er úr einni gerð hráefnis yfir í aðra.
  • Forðast ógerilsneydda mjólk.
  • Einstaklingar úr áhættuhóp ættu að varast að borða, reyktan og grafin fisk,  hráan fisk, hrátt kjöt, ósoðin og/eða lítið hitaðan mat.

 Ítarefni

Uppfært 06.10.2023
Getum við bætt efni síðunnar?