Fara í efni

Áhrif koffíns

Koffín er frá náttúrunnar hendi í kaffi, kakói, tei (svörtu og grænu), gúarana og matvælum unnum úr þeim. Koffín gefur einkennandi beiskt bragð og er notað sem bragðefni m.a. í kóladrykki. Því er einnig bætt í sum matvæli, t.d. orkudrykki. 

Matvæli

Magn vöru

Magn koffíns*

Kaffi **

Bolli (200 ml)

100 mg

Svart te

Bolli (200 ml)

35 mg

Kóladrykkur

½ lítri (500 ml)

65 mg

Orkudrykkur ***

Dós (250 ml)

38-180 mg

Mjólkursúkkulaði

100 g

15 mg

Dökkt súkkulaði

100 g

65 mg

Kakódrykkur

Ferna (250 ml)

4,5 mg

 
* Mismunandi eftir vörutegundum
** Koffínmagn er mismunandi eftir lögun kaffis
*** Athugið innihaldslýsingu
 

Koffín hefur margvísleg áhrif en sé þess neytt innan hóflegra marka verkar það fyrst og fremst örvandi á líkamann í gegnum miðtaugakerfið.

Örvandi áhrif koffíns á líkamann veldur útvíkkun æða, hjartsláttur verður örari og blóðflæðið eykst til allra líffæra. Þar að auki hefur koffín áhrif á öndun, örvar meltingu og eykur þvagmyndun.

Koffínríkir drykkir eins og kaffi og orkudrykkir eru vinsælir þar sem koffín getur dregið úr einkennum þreytu og virðist geta aukið einbeitingu. Hafa ber þó í huga að neysla á koffíni í stórum skömmtum getur haft ýmis óæskileg áhrif á líkamann og andlegt ástand, ekki síst hjá börnum og unglingum.

Besta ráðið við þreytu er hvíld og góður svefn

Ef koffíns er neytt í of miklu magni getur það haft ýmis óæskileg áhrif á heilsu og líðan fólks og valdið höfuðverk, svima, skjálfta, svefnleysi, hjartsláttartruflunum og kvíðatilfinningu.
 

Börn, unglingar og barnshafandi konur eru almennt viðkvæmari fyrir koffíni en aðrir. Áhrif koffíns á börn eru meiri en hjá öðrum þar sem taugakerfi þeirra er enn að þroskast. Óæskileg áhrif geta komið fram hjá börnum jafnvel eftir tiltölulega litla neyslu koffíns.

Þegar barnshafandi kona neytir koffíns berst það í gegnum fylgjuna til fósturs. Fóstrið verður fyfir sömu áhrifum og móðir þess en hjá fóstrinu vara áhrifin lengur. Rannsóknir hafa sýnt neikvæða fylgni milli fæðingarþyngdar og mikillar koffínneyslu móður á meðgöngu. Mikil koffínneysla virðist einnig auka líkur á fósturláti.

Orkudrykkir

Orkudrykkir er samheiti yfir drykki sem innihalda einhvers konar örvandi efni og eiga þeir það allir sameiginlegt að innihalda koffín, þó í mismiklu magni. Í flestum orkudrykkjum eru auk þess viðbætt vítamín eða önnur virk efni.
 

Rannsóknir hafa sýnt að ef áfengi er blandað orkudrykkjum með hátt innihald koffíns eða þeirra er neytt samhliða mikill hreyfingu geti það valdið hjartsláttartruflunum, einkum hjá viðkvæmum einstaklingum.

Hámarksneysla

Fólk er misviðkvæmt fyrir áhrifum koffíns. Tiltölulega lítill skammtur af koffíni getur valdið magaverkjum og svefntruflunum hjá einum einstaklingi þó að annar þoli það betur.
 

Rannsóknir hafa sýnt að neysla koffíns, undir 400 mg á dag (u.þ.b. 4 kaffibollar) hjá heilbrigðum fullorðnum einstaklingi, sé skaðlaus fyrir heilsuna. Neysla umfram það magn eykur hættuna á skaðsemi.

Barnshafandi konum og konum með barn á brjósti er ráðlagt að neyta ekki meira en 200 mg af koffíni á dag (u.þ.b. 1-2 kaffibollar).

Dagleg neysla barna og unglinga á koffíni ætti ekki að vera meiri en 2,5 mg/kg líkamsþyngdar. Þetta samsvarar 60 mg af koffíni hjá 7 ára barni sem vegur 24 kg. Ath. að t.d. í hálfum lítra af kóladrykk eru 65 mg af koffíni.

Hámarksneysla barna og unglinga á koffíni:

Líkamsþyngd

Hámarksneysla koffíns á dag

20 kg

50 mg

30 kg

75 mg

40 kg

100 mg

50 kg

125 mg

 

Ítarefni

Uppfært 21.02.2024
Getum við bætt efni síðunnar?