• Email
 • Prenta

Lausar stöður

 • Email

Dýralæknir á Markaðsstofu Matvælastofnunar

03.04.2019 Fréttir - Lausar stöður

Matvælastofnun óskar eftir að ráða dýralækni tímabundið til starfa á Markaðsstofu stofnunarinnar með aðsetur í Hafnarfirði. Um fullt starf er að ræða í eitt ár og er æskilegt að umsækjandi geti hafið störf 1. júní nk. 

Á Markaðsstofu starfa tíu manns. Markaðsstofa fer með málefni inn- og útflutnings dýra, dýraafurða, matvæla sem ekki eru af dýrauppruna, efna í snertingu við matvæli og ýmis önnur verkefni. Viðkomandi dýralæknir vinnur í nánu samstarfi við aðra starfsmenn skrifstofunnar en hefur jafnframt umsjón með tilteknum verkefnum samkvæmt starfslýsingu.

Helstu verkefni og ábyrgð

 • Eftirlit með inn- og útflutningi dýra, erfðaefnis, dýraafurða, notaðra landbúnaðartækja o.fl.
 • Útgáfa innflutningsheimilda
 • Útgáfa opinberra heilbrigðisvottorða
 • Leiðbeiningar um inn- og útflutningsmál dýraafurða, lifandi dýra o.fl.
 • Framkvæmd áhættumats vegna innflutningsmála
 • Samskipti við innlendar og erlendar stofnanir sem tengjast inn- og útflutningseftirliti
 • Fylgjast með smitsjúkdómum í dýrum og dýraafurðum í öðrum ríkjum
 • Fylgjast með löggjöf og þróun á sviði inn- og útflutnings hér á landi og í öðrum ríkjum
 • Upplýsinga- og gagnaöflun ásamt skýrslugerð
 • Önnur verkefni á verksviði markaðsstofu
 • Vinna að heilbrigðismálum varðandi markaðsaðgengi til móttökuríkja

Jafnframt felst í starfinu samskipti við aðrar stjórnsýslustofnanir hérlendis og erlendis, inn- og útflytjendur, farmflytjendur, hafnaryfirvöld, flugvallaryfirvöld o.s.frv. 

Hæfnikröfur

Umsækjendur skulu vera dýralæknar. Gerð er krafa um færni til tjáningar í ræðu og riti á íslensku og ensku, ásamt góðri almennri tölvukunnáttu. Nákvæm og fagleg vinnubrögð og geta til að starfa sjálfstætt eru áskilin ásamt góðri framkomu og lipurð í samskiptum. Æskilegt er að viðkomandi hafi einhverja reynslu af störfum við opinbert eftirlit. Þekking og reynsla af opinberri stjórnsýslu er kostur. 

Umsóknarfrestur er til 23. apríl 2019. Sótt er um starfið í þjónustugátt á vef stofnunarinnar. Ferilskrá, prófskírteini og dýralæknisleyfi skal fylgja umsókn. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir.

Nánari upplýsingar um starfið veitir Þorvaldur H. Þórðarson, framkvæmdastjóri Markaðsstofu (thorvaldur.thordarson hjá mast.is) og/eða Kristín Hreinsdóttir, mannauðsstjóri (kristin.hreinsdottir hjá mast.is) í síma 530-4800. Launakjör eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og Dýralæknafélags Íslands.

 • Email

Dýralæknaþjónusta á Vestfjörðum

03.04.2019 Fréttir - Lausar stöður

Matvælastofnun auglýsir eftir sjálfstætt starfandi dýralækni til að taka að sér almenna dýralæknaþjónustu og bráðaþjónustu á Vestfjörðum í samræmi við reglugerð nr. 846/2011. Með reglugerðinni er ætlað að tryggja dýraeigendum nauðsynlega almenna þjónustu og bráðaþjónustu við dýr á landssvæðum þar sem fjöldi dýra er takmarkaður og/eða verkefni dýralækna af skornum skammti.

Gerður verður þjónustusamningur við viðkomandi dýralækni. Samningurinn er gerður til 5 ára en með gagnkvæmum uppsagnarákvæðum. MAST tryggir skv. samningnum mánaðarlega greiðslu til að sinna dýralækna- og bráðaþjónustu á víðkomandi þjónustusvæði.

Dýralæknir sem gerir þjónustusamning skal vera með starfsstöð innan hlutaðeigandi þjónustusvæðis til að tryggja eftir föngum að dýraeigendur fái ávallt dýralækna- og bráðaþjónustu innan hæfilegs tíma. Dýralækninum er heimilt að sinna bráða- og dýralæknaþjónustu á öðrum svæðum en tilgreind eru í samningi þessum. Með sama hætti er öðrum dýralæknum heimilt að bjóða fram þjónustu sína á þjónustusvæðinu. Æskilegt er að umsækjandi hafi góða þekkingu á staðháttum og sjúkdómastöðu á viðkomandi svæði. Gerð er krafa um góða íslenskukunnáttu.

Um eftirfarandi þjónustusvæði er að ræða:

Þjónustusvæði 3: Vesturbyggð, Tálknafjarðahreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvíkurkaupstaður og Súðavíkurhreppur.

Nánari upplýsingar um dýralæknaþjónustuna og gerð þjónustusamnings veitir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir sigurborg.dadadottir hjá mast.is í síma 530 4800. Jafnframt er vísað til reglugerðar nr. 846/2011 um dýralæknaþjónustu í dreifðari byggðum landsins. 

Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið starf@mast.is merktar “Dýralæknir – þjónustusvæði 3”. Umsóknarfrestur er til og með 17. apríl n.k.

 • Email

Afleysing dýralækna á sviði alifugla, svína og súna

03.04.2019 Fréttir - Lausar stöður

Tímabundið hlutastarf tveggja sérgreinadýralækna er laust til umsóknar, um er að ræða störf á sviði alifugla, svína og súna. Um fullt starf er að ræða til 31. des. 2019 með möguleika á framlengingu og æskilegt að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst. Aðsetur starfsins er á Selfossi, en önnur staðsetning kemur til greina.

Helstu verkefni og ábyrgð

Starfið felur í sér að taka tímabundið yfir hluta verkefna sérgreinadýralæknis alifuglasjúkdóma annars vegar og svínasjúkdóma og súna hins vegar. Um er að ræða eftirlit og sýnatökur í alifugla- og svínarækt með tilheyrandi eftirlitsferðum, aðallega á suðvesturhluta landsins. Eftirlitið er unnið í teymisvinnu. Starfið felur einnig í sér úrvinnslu niðurstaðna rannsókna á súnum, aðallega salmonellu og kampýlóbakter og skýrslugerð því tengdu.

Hæfnikröfur

 • Dýralæknismenntun og er sérmenntun á þessu sviði æskileg
 • Kostur að umsækjandi hafi starfað við opinbert eftirlit
 • Nákvæmni og sjálfstæði í starfi
 • Skipulags- og samskiptahæfileikar
 • Íslensku- og enskukunnátta
 • Góð tölvukunnátta

Frekari upplýsingar um starfið

Nánari upplýsingar um starfið veitir Sigurborg Daðadóttir yfirdýralæknir á netfanginu sigurborg.dadadottir hjá mast.is eða Kristín Hreinsdóttir mannauðsstjóri á netfanginu kristin.hreinsdottir hjá mast.is eða í síma 530 4800. Umsóknir skulu sendar í tölvupósti á netfangið starf@mast.is merktar „Dýralæknir á sviði alifugla, svína og súna“. Umsókn þarf að fylgja starfsferilsskrá og afrit af prófskírteini hafi umsækjandi ekki íslenskt dýralæknisleyfi. 

Umsóknarfrestur er til og með 15. apríl n.k. Öllum umsóknum verður svarað þegar ráðning liggur fyrir. Vakin er athygli á því að umsóknir gilda í 6 mánuði nema umsækjandi ákveði annað. Launakjör eru samkvæmt gildandi kjarasamningi fjármálaráðherra og Dýralæknafélags Íslands.