Fara í efni

Sýkingar af völdum listeríu í Danmörku

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Í Danmörku hafa um 20 manns veikst af völdum listeríu (Listeria monocytogenes) síðan haustið 2013. Þar af hafa látist 13 einstaklingar sem voru með aðra undirliggjandi sjúkdóma. Rannsókn hefur leitt í ljós að kjötálegg frá einum framleiðanda, Jørn A. Rullepølser A/S, hefur valdið sýkingunni. Engin tilkynning hefur borist í gegnum Evrópska viðvörunarkerfið (RASFF) um að matvæli frá þessum framleiðanda hafi verið flutt til Íslands. Matvælastofnun hefur einnig kannað, hvort álegg frá þessu fyrirtæki hafi verið flutt til Íslands og svo er ekki.

Ferðamenn gætu hins vegar hafa tekið kjötálegg með sér til landsins. Matvælastofnun beinir því til einstaklinga sem tekið hafa kjötálegg með sér frá Danmörku að athuga hvort áleggið sé frá fyrirtækinu Jørn A. Rullepølser A/S eða fyrirtækjum sem hafa keypt vörur frá því og pakkað því. Danska matvælastofnunin hefur gefið út lista yfir vörur sem önnur fyrirtæki hafa selt í Danmörku

Einnig hefur fyrirtækið Tulip innkallað þrjár áleggstegundir. Sé einhver með þessar vörur undir höndum er mælt með því að þeim verði fargað.

Listería getur orsakað sjúkdóm bæði hjá mönnum og dýrum og kallast þessi sjúkdómur listeriosis. Einkenni sjúkdómsins eru mild flensueinkenni, vöðvaverkir, hiti og stundum ógleði og niðurgangur. Listería veldur nánast aldrei sjúkdómi hjá fullfrísku ungu fólki þrátt fyrir að það neyti matvæla sem eru menguð með bakteríunni. Einstaklingar sem eru veikir fyrir geta fengið alvarlegri einkenni s.s. heilahimnubólgu og blóðeitrun, og getur sjúkdómurinn einnig valdið fósturláti. Í einstaka tilfellum getur bakterían valdið dauða, þá er yfirleitt um að ræða einstaklinga sem eru með skert ónæmiskerfi. Áhættuhópar eru barnshafandi konur, fóstur og ungbörn og einstaklingar með skert ónæmiskerfi.

Hægt er að fyrirbyggja sýkingu af völdum listeríu í matvælum með því að:

  • sjóða/hita hráar fisk- og kjötvörur vel (kjarni >70°C),
  • skola vel hrátt grænmeti fyrir neyslu,
  • halda soðnum matvælum frá hráum matvælum til að hindra krossmengun, 
  • gæta hreinlætis og ávallt þvo skurðarbretti og önnur áhöld þegar skipt er úr einni gerð hráefnis yfir í aðra,
  • varast ógerilsneydda mjólk,
  • tryggja kælingu viðkvæmra matvæla og matvæla sem eru tilbúin til neyslu.

Ítarefni


Getum við bætt efni síðunnar?