• Email
 • Prenta

Um MAST

Matvælastofnun

Aðalskrifstofa Matvælastofnunar er á Selfossi að Austurvegi 64 og er móttakan opin alla virka daga frá kl. 9:00 - 16:00.

Matvælastofnun hóf störf 1. janúar 2008 þegar Landbúnaðarstofnun, matvælasvið Umhverfisstofnunar og matvælasvið Fiskistofu voru sameinuð undir einum hatti. Stofnunin starfar undir yfirstjórn atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, sem sett hefur reglugerð nr. 1/2008 um skipulag og starfsemi Matvælastofnunar. Aðalskrifstofa er á Selfossi, en stofnunin rekur  einnig umdæmiskrifstofur víðs vegar um landið og skrifstofu inn- og útflutningsmála í Reykjavík, auk landamærastöðva vegna innflutnings sjávarafurða frá ríkjum utan EES.

Hlutverk

Matvælastofnun sinnir stjórnsýslu, eftirliti, fræðslu og þjónustu við sjávarútveg, landbúnað, fyrirtæki og neytendur í þeim tilgangi að stuðla að heilbrigði og velferð dýra, heilbrigði plantna og öryggi, heilnæmi og gæðum matvæla.

Verkefni

MAST vinnur að matvælalöggjöf í samvinnu við ráðuneytið og á þetta við um löggjöf í allri fæðukeðjunni, þ.e. frá heilbrigði og velferð dýra, þ.m.t. sjávarafurða, plöntuheilbrigði, fóðri, vinnslu og dreifingu og þar til matur er borinn á borð neytenda. Stofnunin fer með eftirlit með frumframleiðslu búfjárafurða, sláturhúsum, kjötvinnslum, mjólkurbúum og eggjaframleiðslu, eftirlit með sjávarafurðum og allt inn- og útflutningseftirlit með matvælum. MAST fer einnig með yfirumsjón með matvælaeftirliti á vegum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga og eftirlit með störfum dýralækna sem veita almenna dýralæknaþjónustu og öðrum sem sinna heilbrigðisþjónustu við dýr. Einnig fer stofnunin með fóðureftirlit og önnur verkefni eins og sjá má á eftirfarandi lista yfir helstu verkefni MAST:

 • Matvælalöggjöf og matvælaeftirlit
 • Neytendavernd og fræðslumál
 • Heilbrigði og velferð dýra
 • Plöntuheilbrigði og sáðvara
 • Fóður og áburður
 • Sóttvarnir og viðbragðsáætlanir
 • Kjötmat og fiskeldi
 • Inn- og útflutningseftirlit, rekstur landamærastöðva
 • Yfirumsjón og eftirlit: Heilbrigðiseftirlit, heilbrigðisþjónusta við dýr
 • Stjórnsýsluverkefni: Lögfræði, alþjóðamál, gæðastýring, stuðningsgreiðslur, öflun hagtalna

Gildi

Matvælastofnun hefur sett sér eftirfarandi gildi sem starfsmönnum stofnunarinnar ber að hafa að leiðarljósi í störfum sínum:

 • Árvekni: Árvekni er forsenda þess að stofnunin nái að rækja hlutverk sitt á tímum örra breytinga. Mæta þarf framþróun og nýjum viðfangsefnum með fyrirhyggju, frumkvæði og lausnum sem svara kalli tímans.
 • Framsækni: Stofnunin skal hafa forystu á sínu starfssviði og vinna að hagræðingu og einföldun á eftirliti og stjórnsýslu. Árangursstjórnun og gæðastjórnun skal hafa að leiðarljósi og leita bestu úrlausnar mála.
 • Traust: Afgreiðsla erinda á að vera fagleg og þannig að viðskiptavinir beri traust til starfsseminnar. Vinnubrögð skulu vera trúverðug, gæta þarf hlutleysis við ákvörðunartöku og sýna ber viðskiptavinum og samstarfsfólki virðingu.
 • Gegnsæi: Stjórnsýslu- og upplýsingalög skal hafa í heiðri og rökstyðja þarf ákvarðanir vel. Nýta ber upplýsingatækni til að leiðbeina viðskiptavinum og tryggja þeim aðgang að nauðsynlegum gögnum og upplýsingum.

Framtíðarsýn

Matvælastofnun mun standa vörð um þá auðlind sem felst í heilbrigði plantna og heilbrigði og velferð dýra í ómenguðu umhverfi. Stofnunin mun jafnframt vinna að gæðum og heilnæmi fisk- og landbúnaðarafurða, matvælaöryggi og neytendavernd í síbreytilegu markaðsumhverfi sem leiðir af nýsköpun í matvælaframleiðslu og auknum alþjóðaviðskiptum.

Stjórnskipulag og störf

Í innra skipulagi MAST er verkefnum skipt milli tveggja megin fagsviða, sem eru annars vegar Neytendavernd og hins vegar Dýraheilsa. Síðan eru stoðsvið fyrir Samhæfingu og Rekstur. Gæðamál heyra beint undir Samhæfingu og þá rekur stofnunin Markaðsstofu, Búnaðarstofu og sex Umdæmisstofur. Afla má frekari upplýsinga eða koma með fyrirspurnir á netfangið mast@mast.is.

Starfsfólk MAST hefur menntun á ýmsum sérsviðum. Við umdæmisstofur starfa héraðsdýralæknar og eftirlitsdýralæknar og á aðalskrifstofu starfa sérgreinadýralæknar að verkefnum sem tengjast heilbrigði og velferð dýra. Matvælafræðingar og næringarfræðingar starfa á sviði Neytendaverndar við matvælaöryggi og neytendamál, kjötmat og einnig stjórnsýslu í samvinnu við lögfræðinga stofnunarinnar. Þá hefur MAST líffræðinga með sérmenntun á sviði dýraeftirlits, plöntuheilbrigðis, sáðvara, fóðurmála og áburðareftirlits. Á komandi árum má síðan gera ráð fyrir að stofnunin hafi aukna þörf fyrir sérmenntað starfsfólk á framangreindum sviðum því verkefnum MAST fjölgar í takt við auknar kröfur sem gerðar eru á sviði dýra- og plöntuheilbrigðis og sívaxandi áherslu sem lögð er á dýravelferð, matvælaöryggi og neytendavernd.

Frá heilbrigði til hollustu

Vígorð Matvælastofnunar er “Frá heilbrigði til hollustu”. Vísar það til þess að stofnunin fer með löggjöf og eftirlit sem varðar heilbrigði plantna, heilbrigði og velferð dýra og síðan matvælaöryggi, ýmist með eigin starfsemi eða með eftirliti með heilbrigðisþjónustu við dýr eða samstarfi og samvinnu við heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga. Heilbrigðiseftirlitið fer með víðtækt eftirlit með framleiðslu og dreifingu matvæla undir yfirumsjón MAST. Heilbrigðiseftirlitssvæðin eru tíu og um allt land.