Fara í efni

Vöðvasullur í sauðfé

Athugið að þessi frétt er ársgömul eða eldri.

Eins og oft áður hafa eftirlitsdýralæknar Matvælastofnunar orðið varir við vöðvasull í sauðfé frá nokkrum bæjum á yfirstandandi sláturtíð. Greiningin hefur verið staðfest af sérfræðingum á Tilraunastöð HÍ að Keldum. Ástæðan fyrir þessu getur verið að hundar komist í eða sé gefið hrátt kjöt eða innmat og að mögulega hafi orðið misbrestur á bandormahreinsun þeirra. Vöðvasullur er ekki hættulegur fyrir fólk en veldur tjóni vegna skemmda á kjöti og hugsanlega óþægindum fyrir féð.

Vöðvasullur í sauðfé eru blöðrur í vöðvum kinda sem innihalda lirfur bandormsins Taenia ovis, sem lifir í hundum og refum. Þegar hundur eða refur étur hrátt kjöt sem inniheldur slíkar blöðrur komast lirfurnar í meltingarveg hans þar sem þær verða að fullorðnum ormum. Egg ormanna fara út með saur og geta þaðan borist í sauðfé. Til að stöðva þessa hringrás er mikilvægt að hundaeigendur láti ormahreinsa hunda sína.

Vöðvasullsbandormurinn smitar ekki fólk en sullirnir valda skemmdum á kjöti og að öllum líkindum vanlíðan fyrir sýkt fé. Annar og verri bandormur, sullveikibandormurinn (Echinococcus granulosus) hefur ekki greinst í sauðfé hér á landi síðan árið 1979 og ormahreinsun hunda vegna hans hefur verið lögboðin í áratugi. Hundaeigendum er enn skylt að láta ormahreinsa hundana sína árlega og vill Matvælastofnun brýna fyrir hundaeigendum að sinna þessari skyldu sinni. Sér í lagi er mikilvægt að ormahreinsa reglulega hunda sem fá hrámeti úr sauðfé til að hindra dreifingu á eggjum ormanna með saur hundanna í sauðfé. Ormahreinsun hunda þar sem búrekstur er, skal fara fram að lokinni aðalsláturtíð eða í síðasta lagi í desember ár hvert. Það skal tekið fram að smitið viðhelst fyrir lífstíð í sýktu fé og því er mikilvægt að sjá til þess að hundar komist ekki í eða séu fóðraðir á hráu kjöti. Jafnframt vill Matvælastofnun beina þeim tilmælum til refaskyttna að leggja ekki út hræ af kindum fyrir refi.

Góðar upplýsingar um vöðvasull má sjá í grein sem birtist í Bændablaðinu 13. desember 2021 og er skrifuð af Karli Skírnissyni og Kristbjörgu Söru Thorarensen sem starfa á Tilraunastöðinni á Keldum. 

https://www.totallyvets.co.nz/portfolio,portfolio,,573,Sheep+measles.html 


Getum við bætt efni síðunnar?