Fara í efni

Vísindagrein birt um orsök hópsýkingar í hrossastóði í Landeyjum árið 2022

Niðurstöður rannsóknar á orsökum hópsýkingar í hrossastóði í Landeyjum, í nóvember 2022, hafa nú verið birtar í vísindaritinu Acta Veterinaria Scandinavica. Staðfest var hópsýkingin var af völdum eiturmyndandi jarðvegsbakteríu, Clostridium septicum, sem barst í hrossin við inndælingu á ormalyfi undir húð.

Í nóvember 2022 komu upp alvarleg veikindi í 16 af 32 hrossum sem tilheyrðu sömu eigendum og komu úr sama hrossastóði. Nokkrum dögum áður höfðu öll hrossin fengið inndælingu undir húð með Noromectin® 1% stungulyfi. Meðal einkenna voru hiti, deyfð, bólgnir útlimir, brjóst og háls, tregða til að hreyfa sig og mæði, sem leiddi til dauða eða aflífunar fimm hrossa. Að auki fannst einn hestur dauður án þess að sést hefði til klínískra einkenna.

Krufning á einu af hrossunum fimm leiddi í ljós alvarlega, bráða bólgu undir húð á hálssvæðinu, sem og eitlabólgu í svæðisbundnum eitlum. Hjá átta af þeim 10 hrossum sem lifðu sýkinguna af komu fram alvarlegar ígerðir á stungustað u.þ.b. 2 vikum eftir inndælingu. C. septicum ræktaðist bæði úr sýnum úr hrossinu sem var krufið og þremur hrossum sem lifðu af alvarlegar ígerðir. Greining á vatnssýnum úr beitilandinu leiddi í ljós að þar var sömu bakteríu að finna. Raðgreining á heilu erfðamengi sýndi að sýni úr sjúku hrossunum innihéldu sama C. septicum stofninn, en stofninn sem einangraður var úr vatnssýnunum var erfðafræðilega nokkuð frábrugðinn.

Þrátt fyrir að ekki sé vitað til þess að sambærileg hópsýking hafi komið upp hér á landi áður er ekki um að ræða nýtt smitefni í landinu. C. septicum er vel þekktur sjúkdómsvaldur í íslensku sauðfé sem veldur bráðapest. Bakterían myndar dvalargró þegar súrefnis nýtur við og getur lifað þannig í umhverfinu í áratugi og mögulega aldir. Algengt er að sauðfé deili beitilandi með hrossum og því ekkert nýtt að gró bakteríunnar sé að finna í umhverfi hrossa. Á umræddum bæ hafði þó ekki verið sauðfjárbeit í nokkra áratugi.

Ekki er um eiginlegan smitsjúkdóm að ræða því sem fyrr segir má ætla að gró C. septicum geti verið til staðar í jarðvegi. Gróin geta borist bæði í meltingarveg og á húð en eru hættulaus þar sem súrefni er til staðar enda þurfa gróin loftfirrðar aðstæður til að vakna til lífsins. Gróin komast ekki af sjálfsdáðum í gegnum órofna húð eða slímhúð og óþekkt er að þessi baktería valdi meltingarfærasýkingu í hrossum. Skíturinn úr hrossunum sem veiktust var því ekki talinn mengaður og bakterían ræktaðist ekki úr honum.

Faraldsfræði hópsýkingarinnar benti eindregið til að gróin hefðu borist í gegnum mengaða húðina með sprautunál, enda fundust ekki aðrar mögulegar skýringar. Útilokað var að lyfið hafi verið mengað eða búnaðurinn sem notaður var. Undir húðinni eru loftfirrðar aðstæður og þar vakna gróin til lífsins og bakterían tekur að fjölga sér og mynda eiturefni. Þar sem ormalyfið er ertandi skapast enn fremur heppilegar aðstæður fyrir vöxt af C. septicum. Áður hefur verið lýst að eitrið getur valdið bráðadauða hjá hrossum, en einnig háum hita og umfangsmiklum bólgum undir húð sem að lokum geta leitt til dauða.

Hrossin voru haldin í tveimur aðskildum hópum þar til þau voru rekin saman og sprautuð með ormalyfi 21. nóvember, en aðeins hrossin sem höfðu verið í öðru hólfinu, eða í nánu samneyti við þau, veiktust. Það bendir til sérlega mikillar mengunar af gróum C. septicum í því hólfi og því má ætla að þau hafi verið í umtalsverðu magni á feldi hrossanna. Ekki er vitað hvernig á því stendur að umrætt hólf mengaðist umfram hólfið þar við hliðina eða hvort hætta sé á slíkri mengun víðar á landinu. Mengaða hólfið var fremur blautt með tjörnum og pollum eins og víða háttar til, einkum í kjölfar bleytutíðar, en rúmgott og hreint að sjá. Tekið skal fram að hrossin voru í góðu ástandi og umhirða þeirra til fyrirmyndar. Mögulega hafði veðurfarið einhver áhrif en bakterían á sinn griðastað í jarðvegi og vatni. Faraldurinn gefur tilefni til frekari rannsókna á C. septicum í umhverfi hrossa á beit.

Stungulyf við ormasýkingum eru ekki skráð til notkunar í hross en meðhöndlun með slíkum lyfjum hefur tíðkast hér á landi í nokkra áratugi án alvarlegra aukaverkana. Dýralæknar bera fulla ábyrgð á meðhöndlun með óskráðum lyfjum.

Matvælastofnun telur hættu á að sambærilegar hópsýkingar geti komið upp víðar hér á landi og varar við því að hross séu sprautuð með Noromectin® undir húð. Hestamönnum er ráðlagt að nýta ormalyf sem gefin eru í munn í samráði við sinn dýralækni, sem metur þörf á meðhöndlun hverju sinni.

Ítarefni:


Getum við bætt efni síðunnar?